Haukur Helgi Pálsson og félagar í Montverde Academy miðskólanum höfnuðu um daginn í 4. sæti á City of Palms Classic mótinu sem jafnan er þekkt sem eitt sterkasta miðskólamót Bandaríkjanna. Montverde mætti St. Benedict í úrslitaleik um 3. sætið á mótinu en Montverde mátti sætta sig við 64-45 ósigur í leiknum þar sem Haukur vann sér inn sæti í byrjunarliðinu.
Haukur var sjötti maður allt mótið fram að úrslitaleiknum um 3. sætið og það stóð ekki á svörunum þegar þjálfarinn spurði hann hvort hann vildi komast í byrjunarliðið. Reyndar urðu undanúrslitin hádramtísk á mótinu hjá Montverde þar sem Haukur var búinn að tryggja liði sínu sigurinn og sæti í úrslitaleiknum þegar hið ólíklegasta gerðist!
,,Ég tók þrjú víti í þessum undanúrslitaleik þegar 0,1 sekúnda var til leiksloka og við einu stigi undir. Ég klikkaði úr fyrsta vítinu en setti næstu tvö og við vorum þá komnir einu stigi yfir. Þarna héldum við að sigurinn væri í höfn en fengum þá dæmda á okkur tæknivillu því einn af bekknum hjá okkur hljóp inn á völlinn fagnandi. Andstæðingarnir fengu því víti, jöfnuðu leikinn og unnu okkur svo í framlengingu,“ sagði Haukur og ljóst að vonbrigði voru gríðarleg hjá Montverde.
,,Þetta mót (City of Palms Classic) er alveg fáránlega sterkt mót og þarna voru öll sterkustu lið landsins. Varðandi byrjunarliðið þá var ég búinn að spila vel á mótinu og þjálfarinn spurði mig hvort ég vildi vera í byrjunarliðinu í næsta leik og ég var ekki lengi að svara þeirri spurningu,“ sagði Haukur sem þessa dagana er staddur á öðru móti sem heitir Junior Orange Bowl Classic og fer fram í Miami.
,,Við kepptum fyrsta leikinn í gær og unnum með 20 stiga mun á endanum. Ég setti 15 stig í leiknum en reif aftur upp skurðinn sem ég var að losna við saumana úr,“ sagði Haukur en hann þurfti 5 spor í aðra höndina á milli litla fingurs og baugfingurs. Haukur kallar þó ekki allt ömmu sína og sagði:
,,Maður klárar samt næstu tvo leiki sem eftir eru og sýnir þeim úr hverju Íslendingar eru gerðir,“ sagði Haukur sem vakið hefur verðskuldaða athygli með Montverde undanfarið.