spot_img
HomeFréttirFever tryggði sér þriðja leikinn með skoti á lokasekúndu

Fever tryggði sér þriðja leikinn með skoti á lokasekúndu

Eftir aðra umferð í undanúrslitakeppni WNBA hafa Minnesota Lynx tryggt sér farseðilinn í úrslitakeppnina annað árið í röð með því að leggja Los Angeles Sparks af velli. Indiana Fever neituðu að fara í frí og tryggðu sér þriðja leikinn til að skera úr hvort liðið mun mæta Lynx í úrslitaviðureigninni.
Sparks 79 – Lynx 80
Á sunnudaginn tóku Sparks á móti Lynx í öðrum leik þeirra og urðu Sparks að vinna til að knýja fram þriðja leikinn. Fyrir leikinn hafði Sparks aðeins tapað einum heimaleik allt tímabilið svo að útlitið var fremur gott fyrir þær. Leikurinn var nokkuð jafn allan tímann og var Candace Parker staðráðin í því að ná þriðja leiknum og spilaði frábærlega í leiknum, 33 stig og 15 fráköst. Með Parker í bílstjórasætinu náðu Sparks að komast 10 stigum yfir í lok þriðja leikhluta eftir að hafa náð 15-0 „run“ og allt virtist ætla að ganga upp hjá þeim. Maya Moore og félagar neituðu þó að gefast upp og fljótlega í fjórða leikhlutanum skellti Moore í tvo þrista í röð og setti spennu í leikinn aftur. Þegar ein og hálf mínúta var eftir og staðan 76-77 skellir Parker í einn þrist langt fyrir utan þriggja rétt áður en skotklukkan rann út, spjaldið ofan í (eins gott að hún kallaði þann bolta). Lynx voru þó fljótar að svara og hentu einnig í þrist og staðan því orðin 79-80. Þetta var því loka karfa leiksins þó að rúm mínúta væri eftir af leiknum. Alana Beard átti síðasta skot leiksins en boltinn vildi ekki ofan í eftir að hafa skoppað af hringnum. Fyrrum WNBA meistararnir eru því komnar aftur í úrslitin til að verja titilinn.
 
Stigahæstu leikmenn Sparks:
Candace Parker 33 stig/15 fráköst/5 stoðsendingar/4 varin skot, Kristi Toliver 16 stig/5 fráköst, Alana Beard 15 stig/7 stoðsendingar og Nneka Ogwumike (nýliði ársins) 11 stig/7 fráköst.
 
Stigahæstu leikmenn Lynx:
Seimone Augustus 21 stig, Maya Moore 20 stig og Lindsay Whalen 17 stig/5 stoðsendingar.
Fever 78 – Sun 76
 
Fever neitaði að fara í frí og tryggðu sér þriðja leikinn sem fer fram á fimmtudaginn í Connecticut. Tamika Catchings var sjóðandi heit í fyrsta leikhluta og sá til þess að Sun skildu ekki stinga Fever af strax í upphafi. Hún var með 17 stig af þeim 20 sem Fever skoraði í leikhlutanum! Það voru samt sem áður Sun sem leiddu eftir fyrsta leikhluta með fjórum, 20-24. Fever komast yfir í fyrsta skipti í öðrum leikhluta þegar rétt undir 2 mínútur voru eftir af fyrsta hálfleik. Eftir það var leikurinn í járnum alveg fram að síðustu sekúndu. En síðasta mínúta leiksins var svakaleg og þegar 12.5 sekúndur voru eftir var Sun á línunni eftir að hafa fengið and1 og staðan 76-76. Allison Hightower, hinsvegar, klikkaði á línunni og Fever náðu frákastinu og brunuðu fram í sókn. Þær fengu galopið „lay-up“ sem rúllaði af hringnum en einhvern veginn náðu þær frákastinu. Boltinn endaði síðan hjá Shavonte Zellous sem keyrði að vítalínunni og skellti einn „jumper“ sem söng í netinu þegar 0,5 sekúndur voru eftir að leiknum. Fever náði því að tryggja sér þriðja leikinn og þar með annað tækifæri á því að komast í úrslitaviðureignina.
 
Stigahæstu leikmenn Fever:
Katie Douglas 24 stig, Tamika Catchings 21 stig og Erlana Larkins 9 stig/11 fráköst.
 
Stigahæstu leikmenn Sun:
Kara Lawson 18 stig, Asjha Jones 17 stig/10 fráköst og Tina Charles 15 stig/8 fráköst.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -