spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaFerskir Hvergerðingar í Hólminum

Ferskir Hvergerðingar í Hólminum

Í Hólminum mættust Snæfell og Hamar í fjórðu umferð 1. deildar. Liðin mættust í undanúrslitum á síðustu leiktíð þar sem Hamar hafði betur. Bæði lið eru mikið breytt og eru liðin örugglega ekki kominn á þann stað sem þau vilja vera á, þó svo að Hvergerðingar byrji á sigri í fyrstu fjórum leikjum sínum.

Byrjunin

Hamar byrjaði leikinn af krafti og í raun völtuðu þeir yfir ráðlausa heimamenn. Það virtist allt ganga upp hjá Hamri á meðan enginn þorði að taka af skarið í sóknarleik Snæfells, það vindur upp á sig og fengu Hamarsmenn auðveldar körfur fyrir vikið. Hamar bryddaði upp á hárri svæðisvörn í byrjun sem ýtti Snæfell úr þeim stöðum sem þeir helst vilja vera á. Hamar komst í 19-0 þangað til konungurinn að Kverná setti fyrstu stig Snæfell, Rúnar endaði leikinn með 8 stig og 10 fráköst. Það var því fjall að kljúfa fyrir heimamenn frá byrjun.

Fjallið

Flest fjöll eru kljúfanleg en það má segja að Sjerparnir hafi ekki verið á bandi Heimamanna í dag. Munurinn fór mest upp í 33 stig en ungir og sprækir Hólmarar sýndu baráttuvilja og dugnað til þess að halda muninum í 20 stigum út leikinn. Hamar gætu látið fleiri lið klífa fjöll í vetur enda með hörku lið. Hólmarar hins vegar þurfa að halda vel utan um hvorn annan og halda áfram að berjast og bæta sig.

Allt til enda

Eins og áður var sagt var það frábær byrjun Hamars sem gerði út um leikinn og var nokkurs konar jafnvægi á leiknum það sem eftir var. Það verður að nefna ungu strákana í Snæfell sem börðust eins og ljón allan leikinn. Þeir eru enn að læra og verða þeir að horfa á þessa leiki sem mikilvæga lexíu í körfuboltamenntun sinni. Hausinn upp og allir með!

Helstu tölur

Hamar sigraði leikinn örugglega með 86 stigum á móti 60.
Rúnar Þór (Snæfell) var með 18 í framlag.
Everage (Hamar) var með 12/15 í skotum (80%) þar af 9/9 í tveggja.
Snæfell hittu úr 3 af 22 þriggjastiga skotum sínum.

Tölfræði leiksins  

Leikurinn var að sjálfsögðu sýndur á Snæfell Tv á youtube sem er liður í afmælisgjöf KKD. Snæfells til aðdáenda sinna í tilefni 80 ára afmælis UMF. Snæfells.

Umfjöllun: Gunnlaugur Smárason

Fréttir
- Auglýsing -