Daníel Guðni Guðmundsson var nýbúin að svæfa son sinn í kvöld þegar við hjá Karfan.is höfðum samband við hann en líkt og flestir ættu að hafa lesið hefur Daníel tekið við starfi þjálfara karla liðs UMFN. "Já þetta kom mér á óvart það er óhætt að segja það. Ég í það minnsta bjóst ekki við þessu símtali frá Gunna (Gunnar Örlygssyni) og þetta gerðist allt mjög hratt." sagði Daníel aðspurður hvort hann hafi verið hissa á að fá þetta símtal og boð um að þjálfa uppeldisklúbb sinn.
"Ég var í raun búin að ákveða að hætta að spila alfarið og ætlaði mér að sökkva mér í kvennalið Grindavíkur og halda þar áfram en þessu tækifæri gat ég ekki neitað. Ég hugsaði hinsvegar um þetta og tók mér tíma í að ræða við vel valið fólk og fjölskyldu mína áður en ég tók ákvörðun. Það voru allir jákvæðir og studdu mig í þessari ákvörðun. Á endanum er það líka þannig að þetta er draumi líkast að taka við sínum uppeldisklúbb. " sagði Daníel enn fremur.
Daníel kemur til með að taka við af einu allra sterkasta þjálfara pari íslands og kemur til með að þjálfa þá einn af sínum átrúnaðargoðum frá því hann var sjálfur á sínum yngri árum hjá Njarðvík. " Logi var náttúrulega ákveðið átrúnaðargoð á mínum yngri árum hjá Njarðvík og ég man að það var heiður að fá að spila með eða gegn honum á sumaræfingum. Hann er atvinnumaður fram í fingurgóma og við erum báðir með Njarðvíkurhjartað á sínum stað. Ég og Logi þekkjumst vel og ég á eftir að spjalla við hann á komandi dögum líkt og aðra leikmenn liðsins. Mig í raun kvíður engu varðandi starfið en upplifi meiri spennu fyrir þessu. Þetta er í raun svipuð tilfinning og þegar ég tók við kvennaliði Grindavíkur fyrir ári síðan. En ég veit hvernig ég vinn og ef ég undirbý mig vel, er trúr minni sannfæringu og fæ góðan stuðning þá mun þetta verða farsælt. Ég er nokkuð viss um það."
En hvað ætlar Daníel sér með þetta Njarðvíkurlið? "Ég veit vel að það er alltaf metnaður, krafa og pressa í Njarðvík að sýna árangur og á mínum uppeldisárum lærði maður þetta í Njarðvík. Ég er í raun að fara úr djúpulauginni yfir í dýpri laug. Ég tel það lykilatriði fyrir klúbbinn að halda þessum kjarna sem er búin að fara með liðið í undanúrslit síðustu tvö ár ásamt þessum ungu leikmönnum sem eru búnir að vera viðloðnir liðið. Þessir drengir verða árinu eldri á næsta ári og þroskaðri í allt sem framundan er. Ég mun leggja fyrir þá mína hugmyndafræði og hvernig mig langi að gera þetta með þeim. Þetta snýst að miklu leyti um það að leikmenn viti sín hlutverk í liðinu og þetta þekki ég sem leikmaður. Mér fannst óþægilegt að spila og vita ekki til hvers var ætlast af mér. Og svo einnig að leikmenn standa allir jafnir og þeir sem leggja á sig fram í að ná árangri og gengur vel, þeim mun verða umbunað. Það eiga allir að fá sín tækifæri þegar þeir leggja á sig vinnuna. Ég ætla að halda áfram og byggja ofaná þessa liðsheild sem hefur verið í gangi síðast liðin ár og berjast fyrir árangri." sagði Daníel að lokum.