Stjarnan hafði betur gegn Grindavík í Umhyggjuhöllinni í kvöld í fyrsta leik undanúrslita Bónus deildar karla.
Stjarnan er því með yfirhöndina í einvíginu, 1-0, en vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram í úrslitin.
Óli Óla leikmaður Grindavíkur var auðvitað ekki hátt uppi eftir tap í kvöld en þó ekki í kjallaranum:
Óli…þetta var roosalegur leikur eins og við mátti búast, fullt hús og allt tryllt hérna, en þetta féll ekki ykkar megin. Hvað fannst þér gerast þarna í þriðja leikhluta þegar þeir náðu að byggja upp 10 stiga múrinn fræga?
,,Þeir voru að fá of mikið af aukaskotum, þeir voru að taka of mikið af sóknarfráköstum, við vorum bara ekki að ná að stoppa á þessum tímapunkti. Við á móti að klikka á opnum sniðskotum og vítum og svona…“
…smátt hér og þar…?
,,Já, smátt hér og þar sem við þurfum að laga fyrir næsta leik, það er bara 1-0 og þeir unnu og frábært hjá þeim. Þetta er bara fyrsti leikur. En mér fannst við gera vel á köflum að halda þeim niðri en við þurfum að stíga betur út og vera fókuseraðri í vörninni þegar líður á leikinn, sem við höfum verið að gera núna í úrslitakeppninni, við höfum verið að fókusera á vörnina og fengið auðveld stig…“
Já, akkúrat, þetta vinnur auðvitað allt saman, vörnin og sóknin…og stundum má segja að vörnin skori…En svo gerðu þeir líka vel á hálfum velli, að loka á drævin hjá Pargo og fleirum…?
,,Já…samt ekki sko. Kane er 5 af 13 í 2 stiga í sniðskotum, vanalega er hann 10 af 13 eða svo, Pargo var að klikka á einhverjum opnum sniðskotum og þetta var allt eitthvað svona ofaní og uppúr. Það er bara 1-0 og áfram gakk.“