spot_img
HomeFréttirFanney: Vonbrigðin eru mikil

Fanney: Vonbrigðin eru mikil

 
,,Við vorum að elta leikinn og það er bara erfitt, sérstaklega að elta lið eins og Njarðvík,“ sagði Fanney Lind Guðmundsdóttir leikmaður Hamars í samtali við Karfan.is í kvöld eftir að liðið féll úr undanúrslitum með tapi gegn Njarðvík í oddaleik.
,,Það var bara ekki nógu gott að þurfa að elta lið eins og Njarðvík og við bara náðum ekki að klára dæmið,“ sagði Fanney og sagði niðurstöðuna gríðarleg vonbrigði.
 
,,Það er mjög sárt að fara í sumarfrí núna og gríðarleg vonbrigði enda er þetta ekki það sem við ætluðum okkur og alltaf svekkjandi þegar maður nær ekki markmiðum sínum,“ sagði Fanney en Hamar hefur engu að síður verið að skrifa nýja og glæsilega kafla í sögu KKD Hamars þó enn vanti stórtitil ef frá er talinn deildarmeistaratitill þessarar leiktíðar.
 
,,Það er vonandi að næsta tímabil geymi titil fyrir okkur en deildarmeistaratitillinn stendur upp úr þessu tímabili en niðurstaðan hér í kvöld voru vafalítið mestu vonbrigðin ásamt bikartapinu gegn KR. Við vorum að spila vel í deildinni í allan vetur en náum einhvern veginn ekki að klára þetta og við náðum ekki markmiðinu okkar, sem er ekki gott.“
 
Hvað telur þú að sumarið hafi að geyma fyrir Hamarsliðið?
,,Botnlausar æfingar bara til að koma tilbúnar á næsta tímabili.“
 
Fréttir
- Auglýsing -