18:17
{mosimage}
(Fannar Ólafsson)
Landsliðsmiðherjinn Fannar Ólafsson var grimmur í teig KR í dag þegar Vesturbæingar tóku 1-0 forystu gegn Grindavík í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Fannar gerði 22 stig í leiknum og tók 6 fráköst.
,,Okkar vörn sá í dag um að stjórna því hvernig skot Grindvíkingar voru að taka og þeir voru ekki að fá nein auðveld þriggja stiga skot nema kannski síðustu fimm mínúturnar þegar við fórum að slaka allt of mikið á,“ sagði Fannar og kvaðst ánægður með varnarleik KR í dag.
,,Við bökkuðum óþarflega mikið þegar við vorum komnir með gott forskot og þá komust Grindvíkingar inn í þetta en við munum passa upp á þetta í næsta leik,“ sagði Fannar og sagði að það hefði verið lögð áhersla á að passa upp á skyttur Grindavíkur.
,,Það skiptir Grindavík miklu máli að vera í stuði fyrir utan og þannig komst t.d. Nick Bradford meira upp að körfunni og hann er frábær leikmaður en á meðan við höldum öðrum í jafn lágu stigaskori og við gerðum í dag þá erum við í góðum málum,“ sagði Fannar en hvað er körfuknattleiksáhugafólk að fara að sjá á mánudag í Röstinni?
,,Við erum að fara að sjá svakalegan leik og mikla baráttu, völlurinn í Grindavík er minni en hér og hraðinn verður meiri, fullt af þriggja stiga körfum og Grindvíkingar verða klárir í slaginn og það þurfum við að vera líka til að landa sigri þar,“ sagði Fannar kátur með sigurinn í DHL-Höllinni í dag.