Leikurinn fór ekki alveg eins og þjálfari og leikmenn ÍA lögðu upp með áður en hann hófst, því liðið tapaði 3. leik sínum við Fjölni í gærkvöldi og er því komið 2-1 undir gegn Grafarvogsbúunum. Karfan.is tók stutt spjall við Fannar Helgason, þjálfara ÍA og Jón Orra Kristjánsson, leikmann liðsins.
"Við mættum alveg flatir í þennan leik," sagði Fannar. "Varnarlega vorum við mjög slakir. Eins var vítanýtingin léleg. Við þurfum að mæta mun beittari í næsta leik." Fannar sagði að það myndi gerast á heimavelli þeirra á Akranesi. "Eins þurfum við meira framlag frá lykilleikmönnum."
Aðspurður hvort leikmenn liðsins væru orðnir þreyttir svaraði Fannar því að hann væri ekki viss um að svo væri. "Við höfum ekki verið nógu tilbúnir. Vorum bara flatir. Þeir voru líka mjög beittir og hittu vel náðu að keyra tempóið. Þeir fengu bara að spila sinn leik."
Fannar og Collin Pryor hafa verið að taka fast á því í þessum leikjum og því var ekki úr vegi að spyrja þjálfarann hvort það væri að hitna á milli þeirra í þessari viðureign. "Þetta er bara playoffs, ekkert annað. Allavega engin hiti mín megin. Menn eru bara að takast á."
Jón Orri tók undir orð Fannars að þeir hafi mætt flatir til leiks. "Þeir byrja að hitta. Náum ekki að stoppa þá eftir það," sagði hann. "Þeir völtuðu bara yfir okkur."
Hver var samt munurinn á leik liðsins í þessum leik og þeim sem þeir sigruður á Skaganum?
"Vörnin okkar var bara drulla. Ömurleg allan leikinn. Erum búnir að vera þéttir eftir áramót en það brotnaði allt í þessum. Svona er þetta bara."
Hvað varðar þreytuna segir Jón Orri að hún sé vafalítið til staðar hjá Fjölni líka. "Allskonar smámeiðsl í öllum liðum. Við erum með ágætis bekk líka, þéttir í fyrstu 8 leikmönnunum okkar. Við erum stórir, þungir og hraustir," bætti svo Jón Orri við brosandi. "Þannig að þreyta er ekki afsökun fyrir þessari hörmung."
Hvernig á þá að undirbúa sig fyrir næsta leik?
"Við þurfum bara að mæta tilbúnir. Spila svæðisvörnina okkar þétt og tryggja okkur annan leik á besta heimavelli á Íslandi!" Til þess þurfa Skagamenn að vinna Fjölni nú tvisvar í röð.