spot_img
HomeFréttir"Fáir sem henta jafnvel í að gera lífið leitt fyrir Ragga Nat"

“Fáir sem henta jafnvel í að gera lífið leitt fyrir Ragga Nat”

 

Í kvöld hefst úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta þetta árið. Þá fara af stað rimmur KR gegn Grindavík og Keflavíkur gegn Tindastól. Á morgun, föstudag, hefjast svo rimmur Stjörnunnar gegn Njarðvík og Hauka gegn Þór frá Þorlákshöfn.

 

Spennan er mikil og ekki síst hjá stuðningsmönnum liðanna. Því ákváðum við að, meðal annars, taka stöðuna á einum stuðningsmanni hvers liðs fyrir sig til þess að reyna sem best að fá stemminguna beint í æð.

 

Nú er komin röðin að stuðningsmanni liðs Hauka, Ásgeiri Einarssyni, en lið hans mætir Þór frá Þorlákshöfn í fyrsta leik í Schenker Höllinni á morgun kl 19:15.

 

 

Hversu lengi hefur þú og afhverju fórst þú að standa við bak Hauka í körfubolta?

Ég byrjaði að æfa körfubolta hjá Haukum 11 ára gamall. Þá dró frændi minn Örn Sigurðarson núverandi leikmaður Hamars mig með sér á æfingar hjá Jóni Arnari Ingvarssyni. Síðan þá hef verið mjög virkur innan Hauka, sem leikmaður yngri flokka til ársins 2012 og sem tölfræðigaurinn síðan 2009.

 

Hverjar eru þínar fyrstu góðu minningar af því að vera stuðningsmaður Hauka? 

Vegna aldurs þá átti ég ekki mikil tök á því að fara mikið á leiki. En fyrstu minningarnar eru þegar Haukar voru með Grindavíkurmennina Guðmundur Bragason og Marel Guðlaugs í liðinu. Leikur þeirra á þessum tíma er mér mjög minnistæður. Langa mesta fjörið þegar maður var nýbyrjaður að mæta þarna er tímabilið sem Haukar voru með Stevie nokkurn Johnson. Gjörsamlega frábær leikmaður sem fá lið gátu hægt eitthvað á. Haukar fóru einmitt í úrslitakeppnina á þeim tíma í 8 liða úrslit. Þó svo að leikirnir á tímabilinu hafi margir farið vel þá er ekki sömu sögu að segja um þetta einvígi á móti Tindastól. Þeir með Clifton Cook fóru full auðveldlega með mína menn. Ég man ennþá eftir viðbrögðum Reynis Kristjánssonar þáverandi þjálfara Hauka. Hann lét einn stólinn sinn vita nokkuð vel hvar Davíð keypti ölið.

 

Hver er (einn) þinn uppáhalds leikmaður í liðinu í dag og afhverju?

Þar sem að jafnaldrar mínir eru margir hverjir mjög góðir vinir mínir enda búnir að æfa saman síðan við vorum að byrja í mútum. Þá ætla ég ekki að velja þá. Sorry Emil og Haukur. Þannig að Kári Jónsson fær mitt atkvæði. Æðislega fjölhæfur leikmaður með framtíðina fyrir sér. Fáir leikmenn fæddir 1997 í þessari deild með jafnsterka nærveru og hann. En við vitum öll hvaða skaða hann getur ollið með boltann í höndum.

 

Hver er þinn "all-time" uppáhalds leikmaður og afhverju?

Maður er augljóslega mjög áhrifgjarn á fyrstu árum sínum í þessum heimi. Þannig að ég verð að nefna Pálmar Sigurðsson. En hann var þjálfarinn minn þegar minn aldursflokkur vann KR í úrslitaleik 7.flokks. En því Íslandsmeistaraliði voru ýmsir athyglisverðir drengir eins og Aron Pálmarsson og Björn Daníel Sverrisson sem eru þekktir á öðrum vettvangi í dag. Það var einmitt á þeim tíma sem manni var sagt hetjusögur af Pálmari og hefur maður síðar náð að „fact-tékka“ þessar sögur, sem heldur Pálmari í þessum sessi.

 

 Hvernig metur þú þetta einvígi gegn Þór?  

Þetta einvígi verður mjög skemmtilegt held ég. Leikirnir hafa báðir fallið okkur í hag í deildinni en Þór tók bikarleikinn í framlengdum leik. Þannig að þetta verður bara gaman.

 

Hverjir eru helstu styrkleikar Þórs?

Hraðir bakverðir og stórir, öflugir strákar í teignum er helsta vopn þeirra og þurfa Haukamenn að vera tilbúnir í mikla baráttu. Raggi stórvinur minn Nathanelsson er alltaf erfiður sérstaklega ef hann ákveður að steppa up í þessari seríu. Ásamt Ragga verður Grétar Ingi mjög erfiður viðureignar undir körfunni. Emil Karel á einnig til að detta í gírinn og er þá mjög erfiður leikmaður að stoppa.  Þá er Vance Hall virkilega flottur leikmaður sem á eflaust eftir að láta Hauka-vörnina finna vel fyrir því. Þá er ekki hægt annað en að minnast á vinina mína Baldur og Þorstein Ragnarssyni. Enda eru þeir stórhættulegir á boltanum, fáránlega snöggir leikmenn sem er ekkert sérstaklega gaman að elta um allan völl. Einnig verður að hafa Halldór Garðar í huga enda tekið miklum framförum í vetur og staðið sig mjög vel. Ragnar Braga mun einnig standa fyrir sínu enda tekið miklum framförum  síðan hann færði sig úr Harlem Breiðholti.

 

Hverjir eru helstu styrkleikar Hauka?  

Styrkleikir okkar Hafnfirðinga er margskonar. Fyrst vil ég nefna hversu lengi og vel kjarni liðsins hefur verið að spila saman en menn þekkja hvorn annan út og inn. Þá eru Haukar mjög hávaxið lið og geta þannig spilað mjög góða vörn. Þá eru langflestir góðir skotmenn þannig að ef einn er ekki með skotfæri þá er opni maðurinn fundinn sem neglir skotinu niður. Flæðið hefur verið mjög gott en hefur oftar en ekki leitt til fyrrnefndar niðurstöðu. Haukar matcha mjög vel upp á móti Þór. Sem dæmi eru fáir sem henta jafnvel í að gera lífið leitt fyrir Ragga Nat heldur en Finnur Atli Magnússon, sem hefur passað mjög vel inn í Haukaliðið. Þá munu Emil Barja og Hjálmar Stefáns henta vel í að reyna að halda aftur af Vance Hall. Einnig liggur styrkleikur Hauka í skotmönnunum sem hafa oft leikið andstæðinga sína grátt. En Kári og Emil Barja hafa staðið sig vel í að keyra inn að körfu draga að sér annan mann og finna menn í opnu skoti.

 

Hvaða leikmaður Hauka er lykillinn að sigri í þessari rimmu?

Þar myndi ég vilja nefna Finn Atla en hann getur gert lífið erfitt fyrir Þórsarana. Því hann er með það gott skot að það getur reynst erfitt fyrir Ragga Nat að fara hjálpa mikið. Því þá skýtur Finnur bara og verður með 20 stig leik í hvert skipti.

 

Hvernig á serían eftir að fara?

3-0 er óskastaðan en ég sé alveg fyrir mér tvo heimasigra í Þorlákshöfn. En ef mínir mæta rétt stemmdir þá myndi ég casha inn á að veðja á 3-1.

 

Ef rautt blóð rynni þér ekki í æðum, hvaða liði hefðir þú haldið með þennan veturinn og afhverju? 

Mig langar að segja tvö svör við þessari spurningu. Landafræðin myndi segja Stjarnan því það liggur við að það sé styttra fyrir mig að keyra í Ásgarð en á Ásvelli. Þá er formaðurinn frændi minn þannig að maður hefði eflaust endað þar. En ef við tökum einfaldega Hauka alveg úr jöfnunni og vetur hefði verið alveg eins og hann var í ár. Þá væri ég væntanlega að klæða mig í KR-peysur en ég hef verið að taka tölfræði einnig fyrir þá í allan vetur.

Fréttir
- Auglýsing -