9:00
{mosimage}
Í Morgunblaðinu í dag er forvitnilegt viðtal við Trausta Stefánsson leikmann ÍR. Í viðtalinu segir hann m.a. að ólíklegt sé að hann verði í körfubolta áfram.
Hér kemur viðtalið.
Trausti Stefánsson, 22 ára gamall íþróttamaður, náði um helgina þeim fádæma góða árangri að verða bikarmeistari í frjálsum íþróttum, með liði sínu FH, á sama tíma og hann er bikarmeistari í körfuknattleik með ÍR. Hann hóf að æfa frjálsar síðasta sumar til þess að bæta snerpuna, en sú ákvörðun vatt heldur betur upp á sig.
„Þetta var bara eins og einhver tískubylgja því allt í einu hófu fjöl margir körfu- og handboltamenn að æfa frjálsar. Ég ætlaði bara að bæta hraðann og snerpuna hjá mér, en fljótlega eftir að ég mætti á mína fyrstu æfingu gerði ég mér grein fyrir að ég væri ekki mikið hægari en þeir bestu á Íslandi. Þannig sá ég að þetta ætti miklu betur við mig heldur en karfan, því maður er búinn að
streða þar í tólf ár en nær svo svona skjótum frama í hlaupunum,“ sagði Trausti.
Hann náði þriðja sæti í 400 metra hlaupi í nýafstaðinni bikarkeppni, og hljóp jafnframt lokasprettinn í 1.000 metra boðhlaupinu, sem FH hafði sigur í, eftir að hafa æft frjálsar í aðeins rúmt ár. „Körfuboltaæfingarnar eru samt mjög góður grunnur, hoppin
þar hafa gert manni mjög gott, en að einhverju leyti er þetta náttúrulega meðfætt,“ sagði Trausti.
Hann glímdi við erfið veikindi síðastliðinn vetur. „Planið var að vera í körfubolta á veturna og í frjálsum á sumrin, en fljótlega eftir að við urðum bikarmeistarar í vetur veiktist ég illa, fékk gollurshúsbólgu, sem lýsir sér þannig að einhver vöðvahimna í kringum hjartað bólgnar út. Ég hélt bara fyrst að ég væri að deyja og vissi ekkert hvað var í gangi. Ég var reyndar farinn að finna fyrir þessu stuttu fyrir úrslitaleikinn, en dreif mig samt á æfingar til að vera í leikmannahópnum, en var svo frá alveg í þrjá eða fjóra mánuði og þá var tímabilið búið í körfunni.
Eins og staðan er í dag, og miðað við hvað mér gengur vel í frjálsum, sé ég svo ekki fram á að byrja aftur í körfubolta, því ég held ég eigi mér meiri framtíð í frjálsum. Maður hefði haldið að eintóm hlaup og sprettir væru hundleiðinleg en þetta er bara
svo gaman,“ sagði Trausti.
Morgunblaðið
Mynd: www.ir-karfa.is