Álftanes hefur samið við Eystein Bjarna Ævarsson um að leika með liðinu á komandi tímabili í fyrstu deild karla. Eysteinn kemur til liðsins frá Hetti á Egilsstöðum, sem féllu niður í fyrstu deildina á síðasta tímabili. Þrátt fyrir að vera frekar ungur að árum hefur Eysteinn nokkra reynslu, en að uppeldisfélagi hans í Hetti meðtöldu hefur hann leikið með Keflavík og Stjörnunni í úrvalsdeildinni. Síðast þegar að Eysteinn lék í fyrstu deildinni, tímabilið 2019-20 skilaði hann 13 stigum, 7 fráköstum, 4 stoðsendingum og 2 stolnum boltum að meðaltali í leik.
Hjá Álftanesi hittir hann fyrir sinn gamla þjálfara hjá Stjörnunni Hrafn Kristjánsson, en þar unnu þeir saman í tvö tímabil frá 2016 til 2018. Þá hittir hann einnig fyrir annan leikmann Hattar frá því á síðasta tímabili, en Dino Stipcic skipti einnig yfir í Forsetahöllina á Álftanesi á dögunum.
Tilkynning:
Í gegnum tíðina hefur myndast mikil og góð körfuboltatenging milli Austfjarða og Álftaness. Margir kappar að austan hafa lagt lóð sín á vogarskálar í starfi körfuknattleiksdeildarinnar og hjálpað til við að koma félaginu á núverandi stað. Sú tenging hélt áfram að gefa í dag þegar Eysteinn Bjarni Ævarsson skrifaði undir samkomulag um að leika með Álftnesingum á næstu leiktíð í 1. deild karla.
Eysteinn Bjarni er líkamlega sterkur og fjölhæfur skotbakvörður og framherji sem kemur til með skila stóru hlutverki til liðsins á báðum endum vallarins. Hann hefur alla tíð leikið með Hetti frá Egilstöðum í tveimur efstu deildum fyrir utan tímabilið 2014-2015 sem hann spilaði með Keflavík og árin 2016-2018 þegar hann lék með Stjörnunni.
Tímabilið 2019-2020 skilaði Eysteinn Bjarni 13.6 stigum, 7.4 fráköstum, 4.0 stoðsendingum og 1.9 stolnum boltum í 1. deild. Þá átti hann gott tímabil í Dominos deildinni á síðasta tímabili þar sem hann skoraði 8.2 stig, tók 4.8 fráköst, gaf 2.5 stoðsendingar og stal 1.1 bolta í leik.