Njarðvíkingurinn Eyrún Líf Sigurðardóttir mun klára tímabilið með Fjölni í Domino´s deild kvenna en hún sagði skilið við Njarðvíkinga á dögunum. Eyrún er nemi í Reykjavík og var það ein helsta ástæðan fyrir brotthvarfi hennar úr Ljónagryfjunni. Karfan.is setti sig í samband við Ágúst Jensson sem var að vonum kátur með liðsstyrkinn.
,,Frábært að fá hana til okkar, góður og hæfileikaríkur leikmaður sem á án efa eftir að styrkja okkur. Sá á karfan.is að hún væri flutt í bæinn og gæti því ekki spilað meira með UMFN á tímabilinu og bauð henni að koma til okkar og kíkja á æfingu og ég er virkilega ánægður með að hún hafi svo í framhaldi af því ákveðið að klára með okkur veturinn,” sagði Ágúst sem nýverið sá á eftir Birnu Eiríksdóttur í raðir Breiðabliks í 1. deild kvenna.
,,Eyrún er öflugur og góður leikmaður með gott körfuboltalegt uppeldi úr frábæru yngriflokka starfi þeirra Njarðvíkinga. Hún hefur unnið titla bæði í yngri flokkum og í meistaraflokki og býr því yfir ákveðinni reynslu þrátt fyrir ungan aldur sem vonandi nýtist okkur í baráttunni sem er framundan. Þannig að ég hlakka bara til að sjá hana í búning á miðvikudaginn gegn KR og vonandi stendur hún sig jafnvel í gulu og hún hefur gert í grænu hingað til.”
Mynd/ [email protected] – Eyrún í leik með Njarðvík gegn Fjölni fyrr á þessu tímabili.