spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaEydís ýtti meisturum Vals yfir þröskuldinn í Njarðvík

Eydís ýtti meisturum Vals yfir þröskuldinn í Njarðvík

Íslandsmeistarar Vals unnu toppslaginn gegn Njarðvík í Subwaydeild kvenna í kvöld. Í fyrstu leit allt út fyrir að nýliðarnir í Njarðvík myndu stinga af og vinna stórsigur en Valskonur vildu ekki heyra á það minnst og unnu nauman 60-63 sigur í Ljónagryfjunni. Eydís Eva Þórisdóttir snögghitnaði í fjórða leikhluta og setti m.a. niðujr risa þrist fyrir gestina með um 40 sekúndur eftir af leiknum.

Gangur leiksins

Njarðvíkingar fóru á kostum í upphafi leiks og leiddu 23-8 eftir fyrsta leikhluta. Meistarar Vals náðu áttum og minnkuðu muninn í 34-33 í hálfleik þar sem Collier var með 14 stig í liði Njarðvíkinga og Ameryst sömuleiðis með 14 í liði Vals.


Í síðari hálfleik voru Valskonur fljótar að jafna metin 36-36 reyndar með þrist sem fór spjaldið ofaní hjá Hallveigu en Njarðvíkingar héldu forystunni 54-48 að loknum þriðja leikhluta. Í þeim fjórða var komið að Eydísar þætti Þórisdóttur þar sem hún skoraði 8 af 11 stigum sínum í leiknum í fjórða leikhluta og kom Val í 60-61 þegar 38 sekúndur voru eftir af leiknum. Njarðvíkingar náðu ekki að skora í næstu sóknum sínum og fóru satt best að segja illa með færin sín við körfuna á lokasekúndunum. Valur lokaði svo leiknum 60-63 og situr því á toppi deildarinnar með 8 stig.

Helstu tölur og maður leiksins

Ameryst Alston var stigahæst hjá Val með 23 stig/ 14 fráköst og 6 stoðsendingar en næst henni var Hallveig Jónsdóttir með 16 stig og 4 fráköst. Herslumunurinn í kvöld var Eydís Eva Þórisdóttir með glæsta frammistöðu í fjórða leikhluta og dýrasta þristinn í leiknum.
Hjá Njarðvík var Aliyah Collier stigahæst með 24 stig/ 11 fráköst/ 5 stoðsendingar og 6 stolna bolta.

Næstu leikir

Næst á dagskrá hjá meisturum Vals er stórleikur gegn Keflavík þar sem Íslandsmeistararnir freista þess að hefna ófaranna í VÍSbikarnum síðastliðna helgi. Njarðvíkingar mæta hinsvegar Breiðablik á útivelli en báðir leikirnir fara fram sunnudaginn 24. október.

Tölfræði leiks
Myndasafn (SBS)

Fréttir
- Auglýsing -