spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaEvan frábær í sigri ÍR á lánlausum Haukum

Evan frábær í sigri ÍR á lánlausum Haukum

ÍR vann í kvöld öruggan sigur á Haukum í sjöttu umferð Dominos deildar karla. Hafnfirðingar hafa nú tapað fjórum leikjum í röð en ÍR komst aftur á sigurbraut.

Gangur leiksins

Það varð snemma ljóst að ÍR ætlaði sér að spyrna sér af botninum sem liðið fann í síðustu umferð er liðið skíttapaði fyrir Þór Þ. Haukarnir sem hafa ekki verið í mikilli stigasöfnun uppá síðkastið voru hinsvegar ólseigir og gáfu Breiðhyltingum ekkert eftir. Lítill munur var á milli liðanna í fyrri hálfleik en Haukar leiddu í hálfleik 45-39.

ÍRingar svínhitnuðu í seinni hálfleik og settu 9 þriggja stiga körfur í þriðja leikhluta. Þar með sigu þeir framúr og lönduðu að lokum öruggum sigri, 97-83.

Tölfræðin lýgur ekki

ÍR náðu að nýta sér betur tapaða bolta Hauka eða nánar tiltekið töpuðu hafnfirðingar fleiri lifandi boltum. Breiðhyltingar settu 24 stig úr hraða upphlaupum gegn einungis 8 frá Haukum. ÍRingar fengu öll stig sín í kvöld frá byrjunarliðinu og þar af leiðandi ekkert stig af bekknum.

Atkvæðamestir

Einhverjir höfðu lýst yfir áhyggjum sínum á því að Evan Singletary væri ekki að finna formið sitt í byrjun tímabils. Hann gaf þeirri umræðu langt nef í kvöld og mætti heldur betur til leiks. Evan endaði með 34 stig, 8 stoðsendingar, 5 fiskaðar villur auk þess að hitta 57% utan af velli. Collinn Pryor hélt áfram að heilla en hann endaði með 19 stig og 11 fráköst.

Brian Fitzpatrick var líkt og áður öflugastur í liði Hauka með 20 stig og 17 fráköst, þar af 8 sóknarfráköst. Hansel Atencia var með 18 stig.

Hvað gerist næst?

ÍR náði sér aftur á sigurbraut en heimsækja topplið Keflavíkur á mánudaginn kl 18:15. Haukar aftur á móti hafa nú tapað fjórum leikjum í röð og þurfa klárlega að fara að horfa niðurfyrir sig þar sem mikill uppgangur er í spilamennsku botnliðanna Þórs Ak og Hattar. Haukar mæta KR í Ólafssal næsta sunnudagskvöld.


Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -