Eva Margrét Kristjánsdóttir hefur ákveðið að söðla um og snúa í heimahagana á nýjan leik og leika með KFÍ í 1. deild kvenna á næstu leiktíð. Þetta kemur fram á heimasíðu KFÍ.
Eva Margrét varð Íslandsmeistari með Snæfell á síðasta tímabili en hún er 17 ára gömul og á meðal efnilegustu leikmanna landsins. Eva var einnig kjörin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2012 og burðarás í yngri landsliðum Íslands.
Á heimasíðu KFÍ segir:
KFÍ ákvað á aðalfundi núna í maí að koma bæði kvenna og karlaliðinu i toppbaráttu og þarna er stigið fyrsta skrefið hjá stelpunum.
Eva er að fara með U-18 ára landsliði Íslands til Solna í Svíþjóð á NM og kemur heim rétt fyrir æfingabúðir KFÍ og mun þar verða ein af aðstoðarþjálfurum búðanna og þó að hún sé ung að árum þá getur hún svo sannnarlega kennt yngri iðkendum. Hún er mikil fyrirmynd innan vallar sem utan og bjóðum við hana hjartanlega velkomna heim.