{mosimage}
(Logi í leik með Bayreuth)
Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson er hvergi banginn fyrir landsleik Íslendinga og Finna á Evrópumótinu í körfuknattleik sem fram fer í Laugardalshöll á morgun.
„Ég er mjög spenntur fyrir leiknum sem og allir í liðinu. Finnar eru með sterkt lið og fóru illa með Austurríkismenn á sunnudag. Við erum samt nógu góðir til að vinna þá hér heima,“ sagði Logi sem hefur leikið undanfarin ár sem atvinnumaður í Evrópu og síðast með þýska 2. deildarliðinu Bayreuth.
Ísland og Finnland mættust á Norðurlandamótinu fyrr í sumar þar sem Finnar höfðu átta stiga sigur gegn Íslendingum. „Leikurinn gegn Finnum á Norðurlandamótinu var fyrsti leikurinn okkar saman í eitt ár, nú eru bæði lið með nýja leikmenn og þeir hafa m.a. á að skipa tveimur stórstjörnum sem hafa reynslu í NBA deildinni. Við förum samt í leikin til þess að vinna.“
Logi sagði ennfremur að í sigurleikjunum í æfingaferð liðsins á dögunum og á Norðurlandamótinu hefði náðst upp gott jafnvægi í sóknarleik liðsins sem væri mikilvægt að halda ná gegn Finnum og öðrum liðum í Evrópumótinu. „Þegar við spilum eins og við gerum best þá jafnast þetta út,“ sagði Logi en íslenska liðið hefur átt það til að skora fleiri stig úr skotum utan af velli í stað þess að sækja að körfu andstæðinganna.
„Hausinn á liðinu verður að vera í lagi á morgun og allir leikmenn rétt stilltir fyrir leikinn,“ sagði Logi að lokum.
Leikurinn á morgun hefst kl. 20:30 í Laugardalshöll og er sá fyrsti í fjögurra leikja hrynu liðsins sem leiknir verða á 10 dögum.
Frétt af www.vf.is