spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Erfitt upphaf fjórða leikhluta útslagið fyrir Ísland í Constanta

Erfitt upphaf fjórða leikhluta útslagið fyrir Ísland í Constanta

Rúmenía lagði Ísland í dag í Constanta í fyrsta leik liðsins í undankeppni EuroBasket 2025, 82-70. Leikurinn var fyrri tveggja í þessum fyrsta glugga keppninnar, en Ísland leikur heima gegn Tyrklandi komandi sunnudag í seinni leiknum.

Hérna er heimasíða mótsins

Fyrir leik

Leikur kvöldsins var sá fyrsti sem Ísland leikur í undankeppni EuroBasket 2025. Með Íslandi og Rúmeníu í riðil í undankeppninni eru Slóvakía og Tyrkland, en seinni leikur Íslands í þessum fyrsta glugga keppninnar er gegn Tyrklandi heima í Ólafssal komandi sunnudag 12. nóvember.

Rúmenía og Ísland voru einnig saman í riðil í síðustu undankeppni EuroBasket, leikið var í Rúmeníu í nóvember 2021 og heima á Íslandi 27. nóvember 2022, en þá unnu bæði liðin sína heimaleiki. Ísland endaði þó fyrir ofan Rúmeníu í riðlinum, þar sem þær voru með +4 stig í innbyrðisviðureign liðanna.

Nokkuð stóra pósta vantaði í lið Íslands fyrir leik kvöldsins, þar sem Sara Rún Hinriksdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir voru frá vegna meiðsla. Þá vantaði einnig fleiri atkvæðamikla leikmenn í hópinn eins og Evu Margréti Kristjánsdóttur og þá var Diljá Ögn Lárusdóttir einnig enn frá vegna meiðsla.

Sögulegt

Helena Sverrisdóttir lék í dag sinn 80. leik fyrir Íslands hönd. Fyrir leik dagsins var hún jöfn Hildi Sigurðardóttur í efsta sæti landsleikjahæstu kvenna sögunnar með 79 leiki. Ætla má að þetta met muni standa í einhvern tíma þar sem leita þarf alla leið niður í 17. sæti lista leikjahæstu leikmanna til að finna leikmann sem enn spilar, en þar situr Hildur Björg Kjartansdóttir með 38 leiki og þar fyrir neðan er liðsfélagi Helenu í Haukum og landsliðinu Þóra Kristín Jónsdóttir í 23. sætinu með 31 leik fyrir Íslands hönd.

Byrjunarlið

Þóra Kristín Jónsdóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir, Tinna Guðrún Alexandersdóttir, Isabella Ósk Sigurðardóttir og Birna Valgerður Benónýsdóttir.

Gangur leiks

Eftir nokkuð rólega byrjun sóknarlega hjá báðum liðum fara þau að koma stigum á töfluna þegar nokkrar mínútur eru liðnar af leiknum. Liðin skiptast í nokkur skipti á forystunni áður en rúmenska liðið nær tökum á leiknum. Fá nokkra þrista til að detta fyrir sig og eru 10 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 29-19. Undir lok fyrri hálfleiksins gerir Ísland nokkuð vel að halda í við heimakonur. Sóknarlega gengur þeim ágætlega, en rúmenska liðið er duglegt að koma sér á línuna og leiða með 7 stigum þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 45-38.

Stigahæstar fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Thelma Dís með 16 stig og þá var Birna Valgerður komin með 11 stig. Þegar í hálfleik var komið var íslenska liðið komið í þónokkur villuvandræði, en Þóra Kristín og Tinna Guðrún höfðu báðar fengið dæmdar á sig þrjár villur á fyrstu 20 mínútum leiksins.

Með herkjum ná heimakonur að halda forskoti sínu í tveggja stafa tölu í upphafi seinni hálfleiksins. Áfram gengur erfiðlega fyrir íslenska liðið að fá stopp, þar sem þær rúmensku eru áfram duglegar að koma sér á gjafalínuna. Leikurinn þó enn nokkuð spennandi við lok þess þriðja, Rúmenía 11 stigum á undan, 65-54. Vendipunktur leiksins kom svo í upphafi fjórða leikhlutans. Þar sem að heimakonur opna fjórðunginn á 11-2 áhlaupi og er munurinn 20 stig þegar 5 mínútur eru til leiksloka, 76-56. Ísland reyndu hvað þær gátu að komast aftur inn í leikinn á lokamínútunum, en allt kom fyrir ekki. Rúmenía sigrar að lokum 82-70.

Atkvæðamestar

Thelma Dís Ágústsdóttir var framlagshæst í íslenska liðinu í dag með 16 stig, 5 af 7 skotnýtingu og 4 stoðsendingar. Stigahæst var Birna Valgerður Benónýsdóttir með 23 stig og þá skilaði Þóra Kristín Jónsdóttir 2 stigum, 4 fráköstum og 9 stoðsendingum.

Kjarninn

Það var ekki eins og þetta rúmenska lið væri það mikið betra heldur en Ísland í dag. Vissulega vinna þær leikinn, en munurinn á liðunum var þó ekki þannig að Ísland hefði ekki átt að geta tekið hann á öðrum degi. Hefðu þurft að frákasta betur, helminga skiptin sem þær sendu Rúmeníu á línuna, mögulega koma fleirum af stað sóknarlega heldur en bara Birnu og Thelmu og þá hefðu þær unnið leikinn.

Ljósu punktarnir fyrir Ísland í leik dagsins voru þó hversu vel tiltölega nýjir leikmenn liðsins þær Thelma Dís Ágústsdóttir og Ísold Sævarsdóttir stóðu sig. Thelma Dís var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður liðsins, en hún gat lítið sem ekkert spilað með liðinu á meðan hún var í háskólanámi í Bandaríkjunum, 2018-2023. Ísold, 16 ára nýliðinn í hópnum, 8 stig og 2 fráköst, kom inn með gífurlega orku í þær mínútur sem hún spilaði og spennandi verður að sjá hvort hún nær ekki að verða enn betri með liðinu á næstu árum.

Hvað svo?

Í seinni leik þessa fyrsta glugga undankeppninnar mætir Ísland liði Tyrklands nú á sunnudaginn í Ólafssal í Hafnarfirði. Aðgangur verður ókeypis í boði Lykils, en Lykill hefur verið öflugur samstarfsaðili KKÍ í meira en 10 ár.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -