Keflvíkingar tóku á móti Stjörnunni í kvöld í Blue höllinni. Fyrir leikinn var Keflavík í 2. sæti og Stjarnan í því 5.. Liðin hafa spilað tvisvar í vetur og unnið sitthvorn leikinn.
Keflvíkingar voru án Emblu Kristínardóttur sem handabrotnaði í síðustu viku. Hún var ekkert allt of ánægð með að vera ekki í liðinu þrátt fyrir að vera í gifsi og sagði í samtalið við blaðamann að hún hefði spilað ef hún hefði verið valin í liðið. ÞVÍLÍKUR NAGLI!
Það tók tæpar 4 mínútur að fá fyrsta stigið en það skoruðu stjörnustúlkur af vítalínunni. Fyrsti leikhluti var ekki til mikillar eftirbreytni, bæði lið að spila fína vörn en stigaskor í algjöru lágmarki. Gestirnir voru aðeins ferskari síðustu mínútuna eða svo. Staðan eftir dapran fyrsta leikhluta 7 – 12.
Það breyttist ekki mikið hjá heimastúlkum í byrjun annars leikhluta. Gestirnir voru þó aðeins iðnari. Keflavík komst aðeins af stað eftir því sem leið á leikhlutann en Stjarnan komst mest 13 stigum yfir. Liðin voru með 21 tapaða bolta samtals í fyrri hálfleik. Það er ekki hægt að segja annað en að fyrstu 20 mínúturnar hafi verið ansi slappar, sér í lagi fyrsti leikhluti. Reyndar voru liðin með 11 varða bolta sem verður að teljast nokkuð gott. En Stjörnustúlkur voru heppnar miðað við spilamennsku að vera yfir. Staðan í hálfleik 28 – 33.
Þriðji leikhluti var hressari. Og greina mátti stíganda hjá báðum liðum. Bæði lið voru að spila fína vörn en gerðu mikið af sóknarmistökum. Heimastúlkur eltu og gestirnir leiddu. Staðan fyrir síðasta leikhlutann 48 – 51.
Stjörnustúlkur byrjuðu fjórða leikhluta betur en heimastúlkur komu sterkar til baka og allt stefndi í spennandi lokamínútur. Heimastúlkur jöfnuðu leikinn þegar um 3 og hálf mínúta voru eftir og komust yfir í kjölfarið. Stjörnustúlkur áttu erfitt uppdráttar síðustu mínúturnar og Keflavíkurstúlkur gerðu vel í að stela sigrinum í leik sem bæði liðin vilja eflaust gleyma.
Byrjunarlið:
Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir, Irena Sól Jónsdóttir, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Brittanny Dinkins og Erna Hákonardóttir.
Stjarnan: Danielle Victoria Rodriguez, Ragnheiður Bjarnadóttir, Alexandra Eva Sverrisdóttir, Bríet Sif Hinriksdóttir og Jóhanna Björk Sveinsdóttir.
Þáttaskil:
Það er oftast ekki nóg að vera sæmilegur í fjórða leikhluta en það dugði Keflvíkingum í kvöld.
Tölfræðin lýgur ekki:
Nýtingin var slæm hjá báðum liðum. Að endingu voru það tapaðir boltar sem gerðu gæfumuninn. En Keflavík tapaði 16 á móti 22 hjá Stjörnunni. Keflavík tapaði mikið af boltum í öllum leikhlutum nema fjórða, en Stjarnan tapaði mikið af boltum í þeim öllum.
Hetjan:
Danielle Victoria Rodriguez var góð fyrir Stjörnustúlkur, hún var með 15 stig, 17 fráköst og 7 stoðsendingar. Brittanny Dinkins var best hjá heimastúlkum með 32 stig, 16 fráköst og 6 stoðsendingar.
Kjarninn:
Skelfilegur leikur beggja liða sem var alls ekkert fyrir augað og ekki til eftirbreytni hjá tveim af bestu liðum landsins. Sem betur fer hljóp smá spenna í hann síðustu mínúturnar. Hvorugt lið átti skilið að vinna þennan leik, því bæði voru slök. Það er þó eflaust sárara að leiða megnið af leiknum og tapa honum svo síðustu mínúturnar.
Viðtöl: