spot_img
HomeBikarkeppniErfitt hjá vængbrotnu Þórsliði gegn Snæfelli

Erfitt hjá vængbrotnu Þórsliði gegn Snæfelli

Fyrirfram mátti búast við að róðurinn yrði erfiður þegar Þór tók á móti úrvalsdeildarliði Snæfells í 16 liða úrslitum Geysisbikarsins í dag. Lokatölur í leiknum voru 36-110.

Það var heldur ekki til að bæta ástandið að Þór lék í dag án tveggja sterkra leikmanna því þær Sylvía Rún og Hrefna Ottósdóttir voru fjarri góðu gamni í dag. Enda fór svo að yfirburðir Snæfells urðu miklir í dag en þeir leikmenn Þórs sem tóku þátt í leiknum eiga eitt stórt hrós skilið fyrir hetjulega baráttu.

Eins og lokatölurnar sýna hefur lítt upp á sig að rekja gang leiksins í smá atriðum. Einungis sex leikmenn Þórs komu við sögu í leiknum og helmingur þeirra 14, 15 og 16 ára leikmenn. Hinir leikmenn liðsins hafa mismikla reynslu t.d. er Ásgerður Jana á sínu fyrsta ári í meistaraflokki.

Annað var uppi á teningunum hjá úrvalsdeildarliðinu sem er jú eitt af toppliðunum í efstu deild þar komu 10 leikmenn við sögu og allir náðu að skora. Stigahæst í liði Snæfells var fyrrum leikmaður Þórs, Heiða Hlín Björnsdóttir en hún skoraði 22 stig þá voru þær Anna Soffía og Tinna með 21 stig hvor.

Í liði Þórs var reynsluboltinn, Rut Herner stigahæst með 11 stig. Næst kom Eva Wium Elíasdóttir með 8 stig 7 fráköst og 2 stoðsendingar. Eva er einungis 14 ára. Ásgerður Jana var með 6 stig, þá voru þær Karen Lind og Marta Bríet með 5 stig hvor og Særós Gunnlaugsdóttir 1 stig og 8 fráköst.

Tölfræði leiks

Þórsstúlkur urðu sem sagt að sætta sig við 74 stiga tap gegn Snæfelli en þurfa ekkert að skammast sín fyrir hetjulega baráttu, verkefnið var einfaldlega of stórt í dag.

 

Umfjöllun, myndir / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -