Haukar höfðu betur gegn Stjörnunni í Ólafssal í kvöld í fyrsta leik átta liða úrslita, 80-68. Haukar því komnar með yfirhöndina í einvíginu, 1-0, en næsti leikur liðanna fer fram í Umhyggjuhöllinni komandi laugardag 13. apríl.
Stjarnan hóf leik kvöldsins mun betur og leiddu þær með 14 stigum eftir fyrsta leikhluta, 12-26. Undir lok fyrri hálfleiksins náðu Haukar þó að svara því aðeins og var munurinn aðeins 7 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-41.
Heimakonur í Haukum taka svo öll völd á vellinum í upphafi seinni hálfleiksins, vinna niður forskotið og eru komnar 9 stigum á undan fyrir lokaleikhlutann, 64-55. Í honum gera Haukar svo nóg til að sigla að lokum nokkuð öruggum 12 stiga sigur í höfn, 80-68.
Keira Robinson átti stórleik fyrir Hauka í leik kvöldsins, skilaði 26 stigum, 14 fráköstum, 5 stoðsendingum og 5 stolnum boltum. Fyrir Stjörnuna var það Denia Davis-Stewart sem dró vagninn með 14 stigum og 22 fráköstum.
Myndasafn (Væntanlegt)