spot_img
HomeFréttirErfiður þriðji leikhluti Íslandi að falli gegn Ítalíu

Erfiður þriðji leikhluti Íslandi að falli gegn Ítalíu

Undir 20 ára karlalið Íslands mátti þola tap í dag gegn Ítalíu í fyrri leik sínum í umspili um sæti 9 til 12 á Evrópumótinu í Heraklion. Ísland mun því mæta liðinu sem tapar viðureign Spánar og Slóveníu í lokaleik mótsins á morgun, en það mun vera upp á 11. sæti mótsins.

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleiknum. Ítalía leiddi með 3 stigum eftir fyrsta leikhluta, 22-25 og þegar í hálfleik var komið var staðan jöfn, 50-50. Íslenska liðið fór heldur illa að ráði sínu í upphafi seinni hálfleiksins, tapa þriðja fjórðung með 18 stigum og eru komnir í ansi snúna stöðu fyrir lokaleikhlutann, 65-83. Í fjórða leikhlutanum gerir Ísland vel að missa þá ekki enn lengra frá sér, færast hægt og rólega nær Ítalíu og eru aðeins 7 stigum undir þegar rúm mínúta er eftir, 86-93. Nær komast þeir þó ekki og fer svo að lokum að Ítalía sigrar leikinn með 12 stigum, 86-98.

Atkvæðamestir fyrir Ísland í leiknum voru Almar Orri Atlason með 27 stig, 7 fráköst, 7 stoðsendingar, Ágúst Goði Kjartansson með 22 stig, 5 fráköst, 4 stoðsendingar og Orri Gunnarsson með 27 stig og 3 stoðsendingar.

Lokaleikur Íslands á mótinu er á morgun sunnudag kl. 10:30 gegn tapliði viðureignar Spánar og Slóveníu upp á 11. sæti mótsins.

Tölfræði leiks

Upptaka af leiknum:

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -