spot_img
HomeFréttirErfiður þriðji leikhluti Íslandi að falli gegn Eistlandi

Erfiður þriðji leikhluti Íslandi að falli gegn Eistlandi

Undir 16 ára lið stúlkna mátti þola tap í dag fyrir Eistlandi á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 77-88. Það sem af er móti hefur liðið því unnið einn leik og tapað tveimur, en á morgun leika þær við Svíþjóð.

Gangur leiks

Ísland fór nokkuð vel af stað í leiknum. Ná mest 8 stiga forystu á upphafmínútunum, en þegar að sá fyrsti er á enda er munurinn 4 stig, 23-19. Lengi framan af í öðrum leikhlutanum hangir Ísland á forystunni, en um miðbygg fjórðungsins nær Eistland að jafna leikinn og í framhaldi komast í nauma forystu, 36-38. Leikurinn er þó í miklu jafnvægi allt til loka fyrri hálfleiksins, en Eistland er tveimur stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 40-42.

Nokkuð var farið að bera á villuvandræðum hjá íslenska liðinu í fyrri hálfleik. Lykilleikmaður liðsins Fjóla Gerður Gunnarsdóttir fékk sína fjórðu villu í öðrum leikhlutanum og þá var Mathilda Sóldís Hjördísardóttir einnig komin með þrjár villur.

Eistland nær að vera með yfirhöndina í upphafi seinni hálfleiksins. Ísland lendir mest 13 stigum undir í leikhlutanum, en staðan fyrir lokaleikhlutann var 57-70. Eistland nær mest 17 stiga forystu undir lok leiksins, en Ísland gerir vel með að klóra í bakkann áður en hann klárast. Niðurstaðan að lokum 11 stiga tap, 77-88.

Atkvæðamestar

Erna Snorradóttir var best í liði Íslands í dag með 22 stig, 7 fráköst og 7 stolna bolta. Henni næst var Dzana Crnac með 14 stig, 7 fráköst og 4 stolna bolta og Anna María Magnúsdóttir bætti við 14 stigum og 5 fráköstum.

Kjarninn

Þetta var ekki alslæmt hjá íslenska liðinu í dag. Ná forystu snemma í leiknum, eru að setja skotin sín og ná góðum stoppum mjög reglulega. Leikurinn var þó á köflum nokkuð hraður og íslenska liðið virtist fá nokkuð mikið af ódýrum villum á sig, sem höfðu líklega þónokkur áhrif á hvernig liðið gat notað leikmenn sína seinna í leiknum. Hefðu þurft fleiri stóra leikmenn til að koma í veg fyrir tæp 20 sóknarfráköst sem Eistland tók í leiknum. Eins og tekið er fram, ekki alslæmt og alveg örugglega betra hjá liðinu heldur en gegn Danmörku í gær. Verður áhugavert að sjá hvort liðið getur tekið fleiri skref í rétta átt gegn Svíþjóð á morgun og Finnlandi á sunnudag.

Hvað svo?

Næsti leikur liðsins er á morgun kl. 10:45 að íslenskum tíma gegn Svíþjóð.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -