spot_img
HomeFréttirErfiður lokaleikhluti varð Íslendingum að bana

Erfiður lokaleikhluti varð Íslendingum að bana

U16 lið drengja tók á móti Svíum í næstsíðasta leik sínum á mótinu. Þrátt fyrir 42 samanlögð stig frá Lars og Birki, var úthaldið ekki til staðar þegar leið á leikinn og Ísland tapaði 79-95.

Eftir að hafa meiðst á mjöðm í leik gærdagsins gegn Eistlandi, lék Tristan Máni ekki með liðinu í dag. Von er um að hann geti verið með í síðasta leik mótsins á móti Finnlandi, en Tristan hefur verið mikilvægur leikmaður af bekknum fyrir landsliðið í síðustu leikjum með 10 stig að meðaltali í leik.

Gangur leiks

Íslendingar voru lengi að koma sér í gang og hleyptu Svíþjóð snemma í 4-9 forskot. Íslendingarnir svöruðu með 10 stigum gegn 2 og Selfyssingurinn Birkir Hrafn var þar fremstur í flokki, en hann skoraði 10 stig í leikhlutanum, þar á meðal risatroðslu. Staðan eftir fyrsta 20-19.

Svíar byrjuðu annan leikhluta á sterkum 9-2 kafla. Hiti færðist í leikinn þegar leikmaður Svía keyrði á Birgi Leif og veiddi á hann villu, sem mörgum þótti að hefði átt að vera ruðningur gegn Svíþjóð. Svíinn skaust upp og virtist skeyta ófögrum orðum í átt að Birgi, sem stóð aðkastið af sér með ró og spekt. Þrátt fyrir góða vörn íslenska liðsins voru Svíarnir hittnari í leikhlutanum, voru með 46% 3ja siga nýtingu, og staðan í hálfleik 38-42 fyrir Svíþjóð.

Þriðji leikhluti byrjaði á stórum þrist frá Lars, sem setti síðan annan til að jafna leikinn. Ísland missti svo Svíana aðeins frá sér en klaufavillur og mistök sænska liðsins urðu til þess að Ísland nartaði í hælana á þeim allan leikhlutann. Einbeitingaleysi Íslands gaf stóru mönnum Svía tvö auðveld sniðskot undir körfunni og staðan 60-66 fyrir lokaleikhlutann.

Svíar byrjuðu fjórða leikhlutann vel en virtust missa móðinn eftir tvö risablokk frá Magnúsi. Móðurinn tapaðist þó ekki lengi, og Svíþjóð skoraði stuttu seinna 14 stig gegn 1 og munurinn orðinn 19 stig.

Atkvæðamestir

Lars Erik Bragason skoraði 21 stig, rétt eins og Birkir Hrafn Eyþórsson. Magnús Dagur Svansson átti flottan varnarleik þar sem hann stal boltanum 4 sinnum, varði tvö skot og reif niður 6 fráköst að auki við 10 stig og 50% skotnýtingu.

Hvað er næst?

Liðið keppir gegn Finnlandi í lokaleik mótsins á morgun kl 11:30 að íslenskum tíma.

Tölfræði leiks

Myndir úr leik

Fréttir
- Auglýsing -