Tarbes lagði Hauka rétt í þessu í riðlakeppni EuroCup í Ólafssal, 41-79.
Leikurinn síðasti heimaleikur Hauka í keppninni, en þær eiga einn leik eftir úti í Tékklandi gegn Brno.
Formáli
Haukar eru búnir að finna það í þessari Europe Cup keppni að bestu körfuboltaliðin í Evrópu eru ansi góð og þótt að Hafnfirðingar hafi vitað fyrirfram að róðurinn yrði á mót straumnum þá gátu þær ekki gert ráð fyrir að sterkasti ræðari þeirra myndi detta úr leik. Skarð Helenu Sverrisdóttur hefur hreinlega verið of stórt til að ekki flæddi yfir borðstokkinn.
Haukar eru bæði stórt og líkamlega sterkt á íslenskan mælikvarða en öll lið sem þær hafa mætt í riðlakeppni Europa Cup hafa verið stærri og stæltari en Hafnfirðingar. Það á einnig við í kvöld.
Franska liðið er mun hærra en það íslenska og það þrátt fyrir að hæsti leikmaður liðsins, Ana Tadic, leiki ekki með í kvöld. Ana er 198 sm á hæð.
BYRJUNIN ER ALLT FYRIR LITLA LIÐIÐ
Liðin eru að þreifa hvort á öðrum í upphafi og jafnt á fyrstu tölum, tveir þristar koma Tarbes í 4-10. Franskar eru stærri og varnarleikur þeirra sterkari. Haukastúlkur fá nærri því engin góð færi á meðan Tarbesliðar ná að vinna sig í betri færi. Hluti af því er að franskar eru frekari á plássið. Gestirnir komast í 4-15 stöðu þegar 4:11 eftir af fyrsta leikhluta. Bjarni tekur leikhlé enda hefur lið hans ekki skorað stig í þrjár mínútur. Vörn Hauka er þéttari eftir leikhléið en þegar að Haukarstelpur finna lausnir sóknarmegin þá klikka aðveldu skotin. Frakkarnir, hins vegar, halda áfram að skapa betri færi og sigla áfram. Staðan eftir fyrsta leikhluta orðin 8-24 og erfitt verður fyrir heimastúlkur að komast aftur inn í þennan leik. Hjá Haukum hefur Haiden Palmer verið skipstjórinn og sú sem skapar færin fyrir félagana. Hún er með 4 stig og hefur skapað flest þau færi sem Haukar hafa fengið.
ANNAR LEIKHLUTI
Tarbes liðið er harðskeytt varnarlega. Þær pressa boltamann og setja stöðuga pressu á sendingar Hauka. Haukar sýna þeim einnig of mikla virðingu og aðeins skortir á grimmdina og frekjuna. Haukar þurfa að henda sér af fullum krafti í hvert hlaup, hvert skrín, hverja árás á körfuna.
Briana skilar þrist og Bríet Sif tvist og þrist og breyta Haukar stöðunni í 16-24. Ef það væri ekki fyrir sóknarfráköst franskra væri leikhlutinn sannarlega eign Hauka að öllu leyti. Þreföld skiptin hjá frönskum þegar 7 mínútur eftir af leihlutanum og smá klaufaskapur í Haukum. Það verður að segja að franska liðið er stærra í öllum stöðum, það virðist líkamlega sterkara í flestum stöðum og skottækni þeirra er til fyrirmyndar.
Skiptingar franska þjálfarans skila liðinu aftur frumkvæðinu og þær eiga næstu 4 stig auk þess sem Haukar hætta aftur að „sjá“ körfuna. Tekur Bjarni aftur leikhlé í stöðunni 16-32.
Haukar koma úr leikhléinu með löngum þrist frá Bríet Sif og Haiden skapar sér flott færi sem fer misgörðum. Nú eru framundan 3:30 til að breyta leiknum Haukum í hag. Í þeirri stöðu sem Haukar eru komnir í verður hvert skot mikilvægt. Haiden setur hann spjaldið ofaní aftur fyrir sig eftir gullfallegt gegnumbrot, 21-33. Mikilvægar 2 mínútur til hálfleiks. Haiden skapar þrist fyrir Lovísu sem ekki dettur og franski miðherjinn launar henni með þrist hinum megin. Haiden er að fara á kostum, eini leikmaður Hauka sem getur tekið „sinn varnarmann á“ og skapað fyrir hinar. Staðan 23-36 í hálfleik.
HÁLFLEIKSSPEKIN
Þrettán stiga munur er vel vinnanlegt vígi í körfubolta og Haukar teljast því enn inni í leiknum. Nauðsynlegt er fyrir Hauka að byrja þriðja leikhluta vel. Er því nokkuð víst að frönsku þjálfararnir muni leggja alla áherslu á sterka byrjun þeirra megin enda verða verðlaunin þægilegur og hættulaus fjórði leikhluti.
Haukarkonur verða að breyta einhverju sóknarmegin. Haiden Palmer hefur borið sóknarleikin á herðunum en átta stig Bríetar hafa þó vegið þungt. Miklu máli skiptir fyrir Hauka að Sólrún og Lovísa finni fjölina utan þriggja stiga línunnar. Gerist það opnast leikurinn og leiðin að körfu Tarbes verður ekki stráin steinhnullungum eins og í fyrri hálfleik.
Þá verða Haukar líka að taka meiri áhættu á villusöfnun, nota skrokkana betur og halda Tarbesliðum frá auðveldum færum í næsta nágrenni við körfuna.
ÞRIÐJI TIL ÞRAUTAR
Haukar verjast vel og hafa vonandi sett tóninn. Sóknarmegin setur Rósa sterkt skrín sem varnarmaður Tarbes „jarðar“ en Rósa fær villuna. Haukar verjast vel áfram en Briana tapar boltanum klaufalega á bakvelli, dæmigert „ekki taka einfaldan kross meða góðan varnarmann á þér“ og fyrstu stig þriðja koma af vítalínunni. Hinum megin fær Sólrún frían tvist sem ekki fer niður. Hún þarf nauðsynlega að finna friðinn í skotinu. Aftur missir Briana boltann klaufalega og það er gaman að fylgjast með atvinnumanninum Julie Wojta frá Bandarikjunum sækja villur. Wojta afar sterk líkamlega, tekur bara góðar ákvarðanir og er alltaf á réttum stað.
Sólrún setur þrist og staðan 26-42. Haukavörnin hefur verið prýðileg það sem af er en allt of margir tapaðir boltar hafa eyðilegt fyrir Haukum. Áhyggjuefni Hauka er að Haiden er komin með þrjár villur og fær hvíld þegar 4:20 eru eftir af þriðja. Þetta er búinn að vera flottur þriðji hjá Haukum. Vonandi kemur Bríet Sif áfram með stig af bekknum. Elísabet blokkar gegnumbrot Ewodo í spjaldið en Bríet misferst hinum megin og Briana brýtur á Preznovu sem gerir Haukum greiða og klikkar úr báðum bónusvítunum.
Lovísa skilar sóknarfrákasti niður af harðfylgi og staðan 30-47. Haukar hafa átt í fullu tré við franska liðið í þessum þriðja leikhluta og franski þjálfarinn tekur leikhlé í stöðunni 30-47. Haukum hefur tekist að halda þægindatilfinningunni frá frönskum þótt endurkoma verði mögulega erfið.
Tarbes kemur úr leikhléinu í pressu allan völlinn, nú á að ljúka þessum leik. Bjarni er snjall og hendir Haiden aftur inn á völlinn. Nú er mikilvægt að fá ekki áhlaup þessar síðustu tvær í leikhlutanum. Franskur þristur eftir langa sókn var vondur eftirréttur.
Lovísa stelur boltanum en Bríet tekur vondan þrist. Nú þyrfti Haukavörnin að halda en frábær tvistur úr öðru horninu frá Samson endar leikhlutann, 32-52.
HVAÐ ER GÓÐUR FJÓRÐI ÞEGAR MUNURINN TUTTUGU STIG?
Þetta er spurning sem Bjarni og Ingvar hljóta að vera að spyrja sig. Haukar byrja með Tinnu, Haiden, Elísabet, Bríet og Briönu, hratt lið með sóknargetu. Fyrstu stigin koma með þristi frá hinni hávöxnu Brezinovu eftir að Bríet er hökkuð í teignum án flauts. Það verður að segjast að franskar fá að spila fastar en Haukar, án refsingar.
Þótt það gagnist ekki til sigurs í þessum leik þá er það mikið gleðiefni fyrir Hauka að Haiden hefur fundið skotið sitt aftur. Hún skorar 4 í röð og er komin með 14 stig.
Haukar ná ekki að brúa bilið en halda samt fullkomlega í við Tarbes áfram. Seinni hálfleikur búinn að vera flottur. Wojta skorar tvist eftir flott franskt spil og svo annan úr hálf-hraðaupphlaupi. Þrátt fyrir fyrsta þristinn frá Lovísu þá er staðan orðin 39-63. Allt í einu sér maður hvernig franska liðið slakar aðeins á klónni. Vonandi ganga Haukar á lagið og ná að gera þetta að „innan við“ tuttugu stiga leik. Wojta skorar aftur munurinn að nálgast þrjátíu, 39-67. Haukar ná sér einungis í þrista og þeir falla ekki og Wojta bætir tveimur í sarpinn, komin með 24 stig og er að mínu mati besti leikmaðurinn á vellinum. Leikhlé þegar 3:07 eftir og tel ég víst að franski þjálfarinn gefi fyrirmæli um að hægja á leiknum.
Bjarni gefur Dagbjörtu og Magdalenu tækifæri til að máta sig við franska atvinnumenn. Briana missir enn boltann og fær á sig óíþróttamannslega villu þegar hún flækist í þjófnum Pardon. Briana að sanna að hún er ekki leikstjórnandi í eðli sínu. Bjarni gefur Tinnu fyrirmæli um að taka að sér boltagæslu og hún nær sér í vítaskot og setur annað. Hennar fyrstu sig í leiknum.
Leikurinn fjarar út og endar 41-79, Wojta skorar síðustu frönsku stigin sem er vel við hæfi.
Bestar Haukastúlkna voru Haiden, Bríet, Briana og Rósa þótt sú síðastnefnda skilaði ekki stigi í leiknum.
Julie Wojta var besti leikmaður vallarins en Ewodo átti frábæran fyrri hálfleik og Brezinova flotta seinni.
Tölfræði leiks
Myndasafn (Bára Dröfn)
Umfjöllun, viðtöl / Jóhannes Albert