spot_img
HomeFréttirErfiður annar leikhluti Íslandi að falli gegn heimakonum í Södertalje

Erfiður annar leikhluti Íslandi að falli gegn heimakonum í Södertalje

Svíþjóð lagði undir 20 ára kvennalið Íslands í kvöld á Norðurlandamótinu í Södertalje. Íslenska liðið hefur því unnið tvo leiki og tapað einum, en einn leikur er eftir af riðlakeppni mótsins hjá Íslandi áður en leikið verður um sæti á sunnudag.

Fyrir leik

Ísland hafði unnið fyrstu tvo leiki sína á mótinu gegn Danmörku og Noregi, 2-0, á meðan að Svíþjóð hafði unnið Danmörku og tapað fyrir Finnlandi, 1-1.

Byrjunarlið Íslands

Vilborg, Elísabeth Ýr, Tinna Guðrún, Emma og Agnes María.

Gangur leiks

Báðum liðum gekk illa að koma stigum á töfluna í upphafi leiks, en þegar um fimm mínútur eru liðnar af fyrsta fjórðung er staðan 2-2. Bæði lið taka þó við sér sóknarlega undir lok leikhlutans og er það Svíþjóð sem nær að vera skrefinu á undan að fjórðungnum loknum, 11-16. Svíþjóð opnar annan leikhlutann svo á 7-1 áhlaupi og eru komnar með forskot sitt í tveggja stafa tölu þegar lítið er liðið af öðrum fjórðung, 12-23. Þær sænsku ganga svo enn á lagið undir lok fyrri hálfleiksins og eru komnar með 28 stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja, 20-48.

Stigahæst fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Emma Theodórsson með 7 stig.

Ísland nær ágætis áhlaupi í upphafi seinni hálfleiksins, þar sem þær eru snöggar að koma forskoti heimakvenna aftur inn fyrir 20 stigin. Gengur samt hægt hjá þeim að fylgja því eftir og Svíþjóð er enn með þægilega 18 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 43-61. Íslenska liðið gerir ágætlega í að hóta því að komast aftur inn í leikinn á lokamínútunum, skera forskotið minnst niður í 7 stig þegar tæp hálf mínúta var eftir, 67-74. Nær komust þær þó ekki og fór svo að lokum að Svíþjóð vann leikinn með 7 stigum, 67-74.

Atkvæðamestar

Elísabeth Ýr Ægisdóttir var atkvæðamest fyrir Ísland í dag með 18 stig, 10 fráköst og 2 stoðsendingar. Þá skilaði Emma Theodórsson 16 stigum, 7 fráköstum, 3 stoðsendingum og 3 vörðum skotum.

Hvað svo?

Næst leikur liðið á morgun laugardag 1. júlí kl. 13:15 gegn Finnlandi.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -