spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaErfiður annar leikhluti Grindavík að falli í Origo Höllinni

Erfiður annar leikhluti Grindavík að falli í Origo Höllinni

Valur lagði Grindavík í Origo Höllinni í kvöld í 26. umferð Subway deildar kvenna, 92-66.

Eftir leikinn eru Valur jafnar Haukum að stigum í 2.-3. sæti deildarinnar með 42 stig á meðan að Grindavík er í 5. sætinu með 20 stig.

Fyrir leik

Liðin höfðu í þrígang mæst áður í deildinni í vetur og hafði Valur sigur í öll þrjús skiptin. Nú síðast 1. febrúar í HS Orku Höllinni, 63-83, en þar var Kiana Johnson best í liði Vals með 18 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Fyrir Grindavík skilaði Danielle Rodriguez hæsta framlaginu með 23 stigum, 5 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Gangur leiks

Heimakonur í Val byrjuðu leik kvöldsins betur. Ná að vera skrefinu á undan allan fyrsta leikhlutann, en Grindavík er þó ekki langt undan, munurinn 2 stig þegar fjórðungurinn er á enda, 16-18. Með sterku áhlaupi í upphafi annars leikhlutans ná heimakonur að sökkva tönnum sínum í leikinn. Gera gífurlega vel varnarlega í fjórðungnum þar sem þær halda Grindavík í aðeins 10 stigum. Sóknarlega komast þær einnig nokkuð af stað og leiða með 20 stigum þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 48-28.

Stigahæst fyrir Val í fyrri hálfleiknum var Ásta Júlía Grímsdóttir með 12 stig á meðan að fyrir Grindavík var Amanda Akalu Iluabeshan Okodugha komin með 13 stig.

Grindavík mæta með ágætis orku inn í seinni hálfleikinn og ná aðeins að vinna á forystu heimakvenna. Koma muninum minnst niður í 15 stig um miðbygg þriðja leikhlutans áður en Valur setur fótinn aftur á bensíngjöfina og kemur forystu sinni aftur yfir tvo tugi. Heimakonur með gífurlega þægilega 24 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 72-48. Í fjórða leikhlutanum gera heimakonur svo vel að verjast spræku liði Grindavíkur, sem gafst aldrei upp á því að reyna að minnka muninn. Niðurstaðan að lokum þó gífurlega öruggur sigur Vals, 92-66.

Kjarninn

Þessi frammistaða var ekki alslæm hjá Grindavík þó þær hafi í raun aldrei verið neitt sérstaklega nálægt því að vera inni í leiknum. Liðið hefur að nákvæmlega engu að keppa á meðan að Valur er í harðri baráttu við Hauka og að einhverju leyti Keflavík við topp deildarinnar og höfðu tapað tveimur af síðustu þremur leikjum.

Atkvæðamestar

Atkvæðamest fyrir Val í leiknum var Kiana Johnson með 19 stig, 6 fráköst, 14 stoðsendingar og 4 stolna bolta.

Fyrir Grindavík var Amanda Akalu Iluabeshan Okodugha atkvæðamest með 17 stig og 5 fráköst.

Hvað svo?

Næst síðasti deildarleikur beggja liða er komandi miðvikudag 22. mars, en þá fær Grindavík lið Keflavíkur í heimsókn og Valur heimsækir Fjölni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -