Bakvörður KR, Jón Arnór Stefánsson, sat fyrir svörum í kvöld á Stöð 2 Sport í kvöldþætti Ríkharðs Óskars Guðnasonar, Sportið í kvöld. Var hann í upphafi þáttar spurður út í hvot að hann væri við það að leggja skóna á hilluna, en Jón hafði fyrir síðasta tímabil sagt það að þetta yrði hans síðasta tímabil.
Dominos deild karla lauk á dögunum með ákvörðun stjórnar KKÍ um að síðustu leikjum tímabils og úrslitakeppni þessa árs yrði aflýst vegna heimsfaraldurs Covid-19.
Aðspurður sagði Jón það ekki ákveðið enn hvort skórnir færu á hilluna, en staðfesti þó að það hafi verið hugmyndin að 2019-20 tímabilið yrði hans síðasta. Sagði hann þó að það væru meiri líkur en ekki að hann myndi hætta fyrir næsta tímabil.
Jón Arnór er að sjálfsögðu einn besti, ef ekki besti leikmaður sem Ísland hefur alið. Meðal annars unnið Íslandsmeistaratitilinn í fimm skipti og í tólf skipti verið valinn körfuknattleiksmaður ársins á feril sem að mestu, 15 tímabil, var spilaður fyrir utan landsteina Íslands.