Eins og flestir vita lenti Jón Arnór Stefánsson í slæmum meiðslum á baki í leik með nýja liði sínu á Spáni, Granada. Jón hefur nú verið frá í 2 vikur og af þeim tíma hefur kappinn verið rúmfastur að hluta til. Nú er kappinn komin með spelkur sem hann gengur með en hefur sig þó hægt um. Við heyrðum í kappanum og spurðum hann um atvikið.
Það er allt gott að frétta af mér. Ég ligg bara uppi í rúmi og les spænskubók eins og er. Þar sem ég hef mikinn tíma fyrir höndum þá get ég nýtt tímann í að lesa góðar bækur. Ég er ekki lengur rúmfastur og get hreyft mig, en þarf þá að ganga með spelku um bakið (sem minnir óneitanlega á korsilettu frá gömlu dögunum). Ég tek því samt mjög rólega ennþá og er ráðlegt að hreyfa mig sem minnst.
En man Jón eitthvað eftir atvikinu ?
Já ég man vel eftir þessu og hvað ég hugsaði í loftinu áður en ég lenti svona illa. Þetta var dágóð stund sem leið áður en ég skall svona illa á bakið fannst mér og ég bjó mig bara undir sársaukann og hugsaði að þetta yrði bara eins og hefur gerst áður, smá slinkur á bakið og svo áfram með smjörið.En ég var í mikilli hæð og þegar ég fann að löppin á andstæðingnum varð akkúrat undir bakinu á mér þegar ég lenti þá vissi ég að eitthvað mikið hafði gerst. Það að löppin hafi veri þarna undir bjó til þetta rosalega högg á mjóbakið vinstra megin sem braut svo þessa tinda á hryggjarliðunum fjórum.
Atvikið var þannig að ég var í vörn, nýkominn inná, og stökk upp til að reyna að blokka skot og var um leið búinn að ákveða að veifa fingrinum framan í andlitið á andstæðingnum Mutombo style og öskra "burt með þennan SK%&" Böðvar Guðjóns style eftir tilþrifin, en þetta fór ekki alveg eins og planað. Ég stökk upp og andstæðingurinn hrasaði til hliðar og fór þannig inn í lappirnar á mér að ég snérist í loftinu og skall niður. Mutombo hefði ekki verið stoltur, né Böddi.
Það eru komnar 2 vikur síðan að þetta gerðist og ég fer aftur í myndartöku eftir viku. Þá kemur í ljós hversu vel beinin gróa og það verður hægt að segja betur til um það hvenær má búst við því að ég spili aftur. Læknarnir töluðu um 3-4 mánuði fyrst þegar þetta gerðist en ég held að það sé stórlega ýkt. Ég er þegar farinn að endurhæfa fyrr en þeir bjuggust við þannig að þetta mjakast áfram í rétta átt. Ég er líka jákvæður og hugsa bara um þetta sem áskorun og það hjálpar helling, stór partur af þessu er að vera vel innstilltur hugarfarslega. Ég var kominn í hörku gott form líkamlega og andlega og ég bý að því.
Það er líka gott fólk í klúbbnum sem vill allt fyrir mig gera og hefur studd vel við bakið á mér, svo var ég heppinn að kærastan mín var nýkomin út og er búin að vera alveg yndisleg! Hún var varla lent þegar hún þurfti að fara að klæða mig í sokkana!
Hvernig er svo framhaldið ?
Endurhæfingin á eftir að taka langan tíma og ég verð að vera kominn í mjög gott líkamlegt stand áður en ég get farið að æfa aftur og hvað þá spila, þetta er náttúrulega ekki bara spurning um að beinin grói og ég sé mættur í búning daginn eftir. Ég stefni á að vera kominn á parketið um miðjan desember, læknarnir hlæja þegar ég segi þeim það, en það er allaveganna planið. Það gerir svona 2 mánuði í meiðsli. Það er ekki neitt, og kemst ekki einu sinni inn á hrökkbrauðslista. (Þið hrökkbrauð vitið hvað ég er að tala um, nefni engin nöfn..coach gummi magg, óli orms, hemmi hauks, hrotti..)
Þökkum Jóni fyrir viðtalið og óskum kappanum að sjálfsögðu hröðum og góðum bata.