Tindastóll kom í heimsókn í Egilsstaði þar sem boðið var uppá hina ágætustu skemmtun. Leikurinn var spennandi allann tímann, en hemamenn voru skrefinu á undan í fyrri hálfleik og virtust líklegri. Hattarmenn spiluðu glimrandi vel á báðum endum vallarins en Stólunum gekk illa að skora, þó gerðu þeir áhlaup undir lok annars leikhluta en heimamenn leiddu með þrem stigum í hálfleik 46-43.
Eftir hálfleikinn gekk báðum liðum illa að skora og var sóknarleikur heimamanna ekki svipur hjá sjón miðað við fyrri hálfleikinn. Það varð Hattarmönnum helst til happs að sóknarleikur gestanna var ekki upp á marga fiska heldur en leikhlutinn engu að síður spennandi og leiddu Hattarmenn 63-58 fyrir loka leikhlutann.
Í síðasta leikhlutanum komast stólarnir yfir þegar rúmar sex mínútur eru eftir 67-70 og uppúr því fór að harðna á dalnum fyrir Hattara. Munurinn fór mest í sjö stig 73-80 þegar 1:22 voru á klukkunni, en þá ná heimamenn áhlaupi og þegar fimmtán sekúndur eru eftir er brotið á Tobin í þriggja stiga skoti og hann nýtir tvö af þremur vítum sínum og staðan 79-80. Í næstu sókn er brotið á Svavari Birgis sem setur annað vítið niður og munurinn tvö stig. Tobin jafnar metin í hraðri sókn heimamanna og leikurinn jafn 81-81 og tíu sekúndur eftir. Í síðustu sókn gestana berst boltinn í hornið vinstramegin á Pétur R. Birgisson sem setur risa þrist og klárar leikinn fyrir Tindastól. Heimamenn taka leikhlé og ná síðasta skoti leiksins en Hreinn klúðrar á móti sínum gömlu félögum og hugsar þeim eflaust þegjandi þörfina því þar fer keppnismaður mikill.
Óvenjulegt og ánægjulegt var að sjá að allir byrjunarliðsmenn Hattar skora yfir 10 stig. Ekki svo óvenjulegt og alls ekki ánægjulegt var að aðeins kom 1 stig af bekknum. Tobin sem fyrr leiðtogi sinna manna með 31/10/10 og skellti sér í sína fyrstu þrennu í vetur.
Stólarnir dreifðu sínu skori nokkuð vel og var nýji leikmaður þeirra Anthony með 17 stig og Darrel Lewis með 16.
Texti: Frosti Sigurðarson
Höttur-Tindastóll 81-84 (27-22, 19-21, 17-15, 18-26)
Höttur: Tobin Carberry 31/10 fráköst/10 stoðsendingar, Hreinn Gunnar Birgisson 15/5 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 12/9 fráköst, Sigmar Hákonarson 12, Eysteinn Bjarni Ævarsson 10/8 fráköst/5 stoðsendingar, Gísli Þórarinn Hallsson 1, Hallmar Hallsson 0, Kristófer Sigurðsson 0, Brynjar Snær Grétarsson 0, Ásmundur Hrafn Magnússon 0, Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar 0.
Tindastóll: Anthony Isaiah Gurley 17, Darrel Keith Lewis 16/4 fráköst/7 stoðsendingar, Viðar Ágústsson 11, Myron Dempsey 11, Svavar Atli Birgisson 8/5 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 8/6 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 6, Pétur Rúnar Birgisson 5, Darrell Flake 2, Sigurður Páll Stefánsson 0, Hannes Ingi Másson 0, Ingvi Rafn Ingvarsson 0.