spot_img
HomeFréttirEnn stríðir heimavöllurinn ÍR: Keflavík kann vel við sig í Breiðholtinu

Enn stríðir heimavöllurinn ÍR: Keflavík kann vel við sig í Breiðholtinu

Keflvíkingar eru Hellisbúar… eða svona næstum því, kunna að minnsta kosti afar vel við sig í Hellinum í Breiðholti hvar þeir skelltu ÍR 84-95 í Iceland Express deild karla í kvöld. Heimavöllurinn hefur verið ÍR-ingum snúinn og árangur liðsins þar mun lakari en á útivöllum. Um hörkuleik var að ræða en Keflvíkingar fundu taktinn á lokasprettinum og kláruðu leikinn af harðfylgi. Magnús Þór Gunnarsson var kominn aftur í búning eftir meiðsli á fingri og munar um minna fyrir Keflvíkinga. Níels Dungal lék ekki með ÍR í kvöld en heimamenn áttu heilt yfir fína spretti í leiknum en ekki úthald í sjálfan lokasprettinn.
 
 
Gestirnir byrjuðu betur en ÍR-ingar voru fljótir að jafna sig, sérstaklega þegar Sovic splæsti í þriggja stiga körfu og fékk villu að auki, fjögurra stiga sókn. Ekki oft sem maður sér þá elsku á sveimi.
 
Robert Jarvis jarðaði sjö stig í röð fyrir ÍR sem komust í 23-19 og Keflvíkingar tóku leikhlé. Sigurður Ingimundarson hefur hótað sínum mönnum Elin Nordegren meðferðinni sem Tiger Woods fékk að kenna á svo Keflvíkingar bættu við sig snúning, kláruðu fyrsta leikhluta 3-12 og leiddu 26-31 eftir fyrsta leikhluta. Vörnin, sem fyrr, ekki að finna taktinn hjá ÍR.
 
Heimamenn hertu róðurinn loks í vörninn í öðrum leikhluta og þá fóru hlutirnir að gerast, 9-0 áhlaup leit dagsins ljós og vinnslan á Ellerti Arnarsyni var afar góð í liði ÍR. Keflvíkingar leiddu í hálfleik 40-42 og máttu þakka það vasklegri framgöngu Charles Parker.
 
Nemanja Sovic var stigahæstur ÍR-inga í hálfleik með 10 stig og 5 fráköst en hjá Keflvíkingum var Charles Parker í sérflokki með 20 stig og 6 fráköst.
 
Jarryd Cole gerði fyrstu stig Keflavíkur í síðari hálfleik, ekki seinna vænna en að komast í takt við leikinn þar sem hann fékk sína þriðju villu í fyrsta leikhluta og sást fyrir vikið ekkert í öðrum leikhluta. Dæld kom í ÍR bílinn snemma í þriðja leikhluta þegar Robert Jarvis fékk dæmda á sig villu og svo strax tæknivíti eftir einhver orðaskipti og var kappinn ekki par sáttur með niðurstöðuna. Keflvíkingar nýttu sér meðbyrinn og breyttu stöðunni í 50-57 með 9-0 áhlaupi.
 
Á lokaspretti leiklutans virtust ÍR-ingar vera að ranka við sér á ný en þá hrukku Keflvíkingar í gang að nýju og lokuðu leikhlutanum 61-69.
 
Framan af fjórða leikhluta var aðeins eitt lið á vellinum, Valur Orri og Cole splæstu í myndarlega ,,alley-up“ troðslu og ÍR-ingar urðu um stund áhorfendur á sínum eigin heimavelli. Magnús Þór Gunnarsson innsiglaði svo sigur Keflavíkur þegar hann breytti stöðunni í 65-83 með þriggja stiga körfu. ÍR klóraði aðeins í bakkann, kveiktu von í s.b.v. innbyrðisviðureignina þar sem lokatölur reyndust 84-95.
 
Keflvíkingar eru í 3. sæti eftir umferð kvöldsins og koma þar fast á hæla Stjörnumanna í 2. sætinu. ÍR missti fimmta sætið og fór niður í það sjötta með 10 stig og hafa aðeins unnið einn heimaleik í deildinni en fjóra útileiki!
 
 
Stigaskor:
 
ÍR: Nemanja Sovic 26/10 fráköst, James Bartolotta 18, Robert Jarvis 16/4 fráköst/8 stoðsendingar, Hjalti Friðriksson 10/5 fráköst, Ellert Arnarson 7, Kristinn Jónasson 3, Eiríkur Önundarson 3, Þorvaldur Hauksson 1, Húni Húnfjörð 0, Friðrik Hjálmarsson 0, Bjarni Valgeirsson 0, Daníel Capaul 0.
 
Keflavík: Charles Michael Parker 34/9 fráköst, Steven Gerard Dagustino 19/4 fráköst/5 stoðsendingar, Jarryd Cole 16, Magnús Þór Gunnarsson 10/5 fráköst/5 stolnir, Valur Orri Valsson 7, Almar Stefán Guðbrandsson 6/8 fráköst, Hafliði Már Brynjarsson 3, Andri Þór Skúlason 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Kristján Tómasson 0, Andri Daníelsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0.
 
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Georg Andersen
 
Myndir og umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected] 
Fréttir
- Auglýsing -