Undir 16 ára lið Íslands leikur þessa dagana á Evrópumótinu í Sófíu í Búlgaríu. Í dag tapaði liðið sínum öðrum leik á mótinu fyrir Slóveníu, 46-83.
Líkt og tölurnar gefa til kynna var um ofjarl að ræða fyrir Ísland í leik dagsins. Strax í upphafi leiks náði Slóvenía að byggja sér upp góða forystu, leiddu með 10 stigum eftir fyrsta leikhluta, 9-19. Undir lok hálfleiksins náðu íslensku stelpurnar þó aðeins að spyrna sér við, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var munurinn sá sami, 23-33, Slóveníu í vil.
Í upphafi seinni hálfleiksins gerði Slóvenía svo útum leikinn. Með góðum 11-29 leikhluta komu þær muninum í 28 stig fyrir lokaleikhlutann. Eftirleikurinn því nokkuð auðveldur fyrir þær, en að lokum unnu þær leikinn með 37 stigum, 46-83.
Atkvæðamest fyrir Ísland í leiknum var Lára Ösp Ásgeirsdóttir með 12 stig og 4 fráköst. Þá áttu Marín Lind Ágústsdóttir og Júlía Ruth Thasaphong einnig fínan dag í íslenska liðinu.
Næst leikur liðið kl. 15:15 á morgun gegn Bosníu og Hersegóvínu.