08:16:11
Það er ekkert lát á stórleikjum í einvígi Boston Celtics og Chicago Bulls, en meistararnir færðust í nótt skrefi nær undanúrslitum Austurdeildarinnar með sigri í enn einum framlengdum leiknum, 106-104. Þá sendu Dallas Mavericks San Antonio Spurs í óvenju snemmbúið sumarfrí, en þeir unnu leik liðanna, 93-106, og einvígið 4-1. Á meðan tóku Orlando 3-2 forystu í rimmunni gegn Philadelphia með heimasigri, 91-78, og Portland Trail Blazers héldu sínum vonum á lífi með því að sigra Houston Rockets, 88-77, en staðan hjá þeim er 3-2 fyrir Houston.
Paul Pierce var hetja Boston Celtics í nótt eins og oft áður, en hann jafnaði leikinn rétt fyrir lok venjulegs leiktíma og tryggði svo sigurinn með stökkskoti undir lok framlegingar. Brad Miller fékk færi á að jafna leikinn úr tveimur vítaköstum, en klikkaði á því fyrra og missti vísvitandi marks með því seinna til að fá boltann aftur, en allt kom fyrir ekki og Boston leiðir 3-2. Pierce var með 26 stig, en hann fékk líka hjálp frá tveimur ungum leikmönnum sem hafa átt stórleiki í þessum úrslitum, Rajon Rondo sem var með 28 stig og 11 stoðsendingar, og Glen „Big Baby“ Davis, sem var með 21 stig. Ray Allen fór út af með sex villur í fjórða leikhluta. Þá var Kendrick Perkins með 16 stig, 19 fráköst og 7 varin skot.
Hjá Bulls var Ben Gordon stigahæstur með 26 stig, Kirk Hinrich var með 19 og John Salmons 17.
…
San Antonio hefur síðasta áratuginn verið sigursælasta lið NBA, en nú er greinilega komið að uppbyggingarstarfi því þeir voru í nótt slegnir út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í fyrsta sinn síðan árið 2000 (þar sem Duncan var frá vegna meiðsla).
Tim Duncan og Tony Parker eru eitt allra besta tvíeyki deildarinnar, en þeir þurfa meira til eins og sannaðist í þessum leik. Á meðan Manu Ginobili er frá vegna meiðsla vantar einfaldlega fleiri víddir í leik þeirra og það gátu Dallas Mavericks nýtt sér, en þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem þeir komast upp úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Dallas komu á óvart í þessum úrslitum því þeir voru að leika afar vel, en veturinn hefur verið upp og ofan hjá þeim, m.a. vegna meiðslavandræða. Dirk Nowitzki fór fyrir sínum mönnum líkt og svo oft áður, en hann var með 31 stig og 9 fráköst. Jason Terry var með 19 og Josh Howard var með 17. Hjá Spurs var Duncan með 30 og Parker með 26.