Karla- og kvennalandslið Íslands fá enga heimaleiki í undankeppnum stórmótanna í nóvembermánuði eins og til stóð.
Þetta var tilkynnt á heimasíðu FIBA fyrir skemmstu en Alþjóða körfuknattleikssambandið samþykkti í seinasta mánuði að standa að þessum mótum á þennan hátt vegna útbreiðslu Covid-19, í stað þess að keppa með hefðbundnum hætti heimaleiki og útileiki.
FIBA mun notast við sama form og NBA hefur látið ganga upp, þ.e.a.s. að liðin verði öll saman í vernduðu umhverfi fyrir umheiminum, svokölluðum búbblum.
Kvennalandsliðið fer til Grikklands og karlalandsliðið mun fara til Slóvakíu þar sem öll liðin í viðkomandi riðlum koma saman og leika fyrri umferðina á nokkrum dögum.
Kvennalandslið Íslands átti að leika við Slóveníu á heimavelli 12. nóvember og Búlgaríu á útivelli 15. nóvember í undankeppni EM. Þess í stað fer liðið til Heraklion í Grikklandi og mætir þar Slóvenum, Búlgörum og Grikkjum dagana 8.-15. nóvember.
Karlalandsliðið átti að leika tvo heimaleiki í forkeppni HM 2023, gegn Lúxemborg 26. nóvember og gegn Kósóvó 29. nóvember. Þess í stað verður farið til Bratislava og leikið þar gegn Lúxemborg, Kósóvó og Slóvakíu dagana 23. -29. nóvember.
Seinni umferð riðlanna verður leikin í febrúarmánaði á svipaðan hátt samkvæmt áætlun FIBA.