Topplið Stjörnunnar tók í kvöld á móti Grindavík í Domino’s deild karla. Fyrir leik höfðu heimamenn unnið tólf deildarleiki í röð, og sátu í toppsæti deildarinnar með tveggja stiga forskot á Keflavík og leik til góða. Grindavík hafa hins vegar verið í talsverðu basli og sátu fyrir leik í níunda sæti með 12 stig.
Stjörnumenn byrjuðu leikinn talsvert betur og komust í 7-0 áður en Grindavík komst á blað. Varnarleikur Grindavíkur var í molum til að byrja með, og sókn gestanna var mjög einstaklingsmiðuð og tilviljanakennd. Stjörnumenn gengu á lagið í fyrsta leikhluta og leiddu 30-22 að loknum fyrsta fjórðungi.
Varnarleikur Grindvíkinga batnaði umtalsvert í öðrum leikhluta, og áttu Stjörnumenn erfitt með að koma boltanum ofan í körfuna lengst af. Sóknarlega var einstaklingsframtakið áfram í hávegum haft hjá gestunum, og var mikið um að menn tækju skot af dribblinu með mann í andlitinu, sem er yfirleitt ekki talið vænlegt til árangurs. Sem dæmi má nefna að Grindavík gaf einungis 5 stoðsendingar allan fyrri hálfleik og skoruðu 41 stig. Eftir svakalegan flautuþrist frá Nick Tomsick höfðu heimamenn 9 stiga forskot í leikhléi, 50-41.
Í þriðja leikhluta héldu Grindvíkingar áfram að loka vel á Garðbæinga og létu boltann ganga betur á milli sín sóknarlega. Gestirnir náðu um tíma að minnka muninn í 3 stig, 61-58 um miðbik þriðja leikhluta og var munurinn fyrir lokafjórðunginn einungis fjögur stig, 71-67. Hins vegar komust gestirnir ekki nær sigri en það. Stjörnumenn áttu fjórða leikhluta með húð og hári, og unnu að lokum frekar öruggan 14 stiga sigur, 99-85.
Af hverju vann Stjarnan?
Í raun má segja að sigur Stjörnunnar hafi síst verið of stór, en liðið var talsvert betra á öllum sviðum körfuboltans. Sóknarleikur Grindavíkur var helst til of einstaklingsmiðaður lengst af, sem gengur einfaldlega ekki til lengdar gegn jafnsterku varnarliði og Stjörnunni.
Bestur
Margir í liði Garðbæinga áttu flottan leik, og virðast Stjörnumenn einfaldlega vera með sín hlutverk á hreinu. Nick Tomsick var stigahæstur með 26 stig, Hlynur Bæringsson skoraði 16 stig og tók 13 fráköst, Ægir Þór Steinarsson gaf 12 stoðsendingar og Urald King var með tvennu, 11 stig og 10 fráköst.
Hjá Grindavík var Ingvi Guðmundsson stigahæstur með 24 stig, en Seth LeDay var einnig öflugur með 20 stig og 8 fráköst.
Framhaldið
Stjörnumenn fara næst í heimsókn í Origo-höllina að Hlíðarenda þar sem þeir mæta Val, föstudaginn 7. febrúar klukkan 18:30. Degi fyrr taka Grindvíkingar á móti Þór frá Þorlákshöfn í Suðurstrandarslag, og hefst sá leikur klukkan 19:15.
Myndir / Bára Dröfn
Viðtöl / Sigurbjörn Daði