Fundi KKÍ og mótanefndar sem fram fór kl. 16:00 í dag er lokið, en á honum var farið yfir stöðuna á mótahaldi með tilliti til þeirra tilmæla sem sóttvarnarlæknir sendi frá sér fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningu sambandsins hefur engin ákvörðun verið tekin varðandi mótahald og því má gera ráð fyrir að leikir kvöldsins fari fram samkvæmt skipulagi.
Tilkynninguna má í heild lesa hér fyrir neðan, en samkvæmt henni mun sambandið vera að bíða eftir frekari leiðbeiningum frá heilbrigðisráðherra.
Tilkynning KKÍ:
Óformlegar fregnir bárust af því fyrri hluta dags í dag um hertar aðgerðir yfirvalda í baráttunni gegn COVID-19 og þeirri smitbylgju sem er á höfuðborgarsvæðinu.
Vegna þess hittust stjórn KKÍ og mótanefnd á fjarfundi kl. 16:00 í dag. Engin ákvörðun var tekin á fundinum önnur en að bíða eftir auglýsingu heilbrigðisráðherra. Vert er að geta að engar formlegar upplýsingar hafa borist frá yfirvöldum til íþróttahreyfingarinnar, þrátt fyrir að eftir því hafi verið kallað í dag og því ekki hægt að ákveða næstu skref varðandi mótahald KKÍ.
Stjórn og mótanefnd munu funda aftur í fyrramálið, en vonandi liggur reglugerð heilbrigðisráðherra þá fyrir svo hægt verði að taka ákvarðanir um næstu skref.