spot_img
HomeFréttirEndurlífgaðir ÍR-ingar rúlluðu yfir FSu í Hellinum

Endurlífgaðir ÍR-ingar rúlluðu yfir FSu í Hellinum

Hrakfarirnar hafa elt ÍR-inga í allan vetur. Missa frá sér mikilvæga leikmenn og nýr þjálfari tekur við á miðju tímabili. Stundum eru samt allar breytingar góðar þegar komið er í öngstræti og svo virtist sem sá tímapunktur væri kominn hjá ÍR. 

 

Fyrir leik ÍR og FSu voru ÍR-ingar búnir að tapa jafn mörgum leikjum og undir stjórn Bjarna Magnússonar, svo það var ekki að sjá á niðurstöðum leikja að eitthvað væri að batna. Skoði maður hins vegar tölfræðina sést hvað hefur breyst. Skotnýting andstæðinga ÍR er að falla, þeir skora færri stig per sókn og þeir taka færri fráköst. Varnarleikurinn, sem lengi hefur verið vandamál hjá Breiðhyltingum virðist vera að herðast.

 

FSu liðar fengu nýjan erlendan leikmanna í Chris Woods eftir að nafni hans Anderson hafði reynst þeim ónýtur. Með Woods í liðinu er FSu að spila skilvirkari sóknarbolta en vörnin situr enn á hakanum. 

 

Botnbarátta í Hellinum og við búist að bæði lið myndu bíta frá sér til að berjast um áframhaldandi dvöl í efstu deild. Fyrri hálfleikur einkenndi þá staðreynd þó ÍR væri alltaf skrefinu á undan en honum lauk með 7 stiga forystu ÍR, 50-43 og útlit fyrir spennandi leik. 

 

Allt kom þó fyrir ekki. FSu liðar mættu flatir og áhugalausir til seinni hálfleiks. Sóknarleikurinn var stuttur og tilviljunarkenndur. Allir að bíða eftir að næsti maður gerði eitthvað í stað þess að hreyfa sig án boltans. ÍR-ingar hins vegar, sem höfðu verið að hitta vel í fyrri hálfleik, héldu uppteknum hætti og keyrðu grimmt á gestina. Létt blanda af sóknarleik inni í teignum saman við langskot fyrir utan var uppskriftin sem þurfti til að brjóta niður andstæðinginn. Varnarleikurinn stífur en tilburðir gestanna í sókn voru heldur ekki ógnandi.

 

Uppgjöfin var alger hjá FSu sem skoraði aðeins 29 stig í seinni hálfleik á móti 56 stiga regni frá heimamönnum en leiknum lauk með öruggum 34 stiga sigri ÍR, 106-72. 

 

Jonathan Mitchell skoraði 36 stig og tók 10 fráköst en hann hefur ekki skorað meira í allan vetur. Annar leikmaður ÍR sem hefur verið að stíga heldur betur upp í síðustu leikjum en Sveinbjörn Claessen en hann setti niður 26 stig á FSu – það mesta á þessari leiktíð. Hjá FSu var Chris Woods með 27 stig og 20 fráköst en framlagið var takmarkað frá öðrum leikmönnum. 

 

Myndasafn:  Bára Dröfn

 

ÍR-FSu 106-72 (24-20, 26-23, 28-13, 28-16)
ÍR: Jonathan Mitchell 36/10 fráköst, Sveinbjörn Claessen 26, Vilhjálmur Theodór Jónsson 12/5 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 8, Sæþór Elmar Kristjánsson 7, Trausti Eiríksson 6/4 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 3, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 2/10 fráköst/5 stoðsendingar, Kristófer Fannar Stefánsson 2, Daði Berg Grétarsson 2/4 fráköst/6 stoðsendingar, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 2, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 0.
FSu: Christopher Woods 27/20 fráköst, Cristopher Caird 9, Hlynur Hreinsson 9, Gunnar Ingi Harðarson 7, Geir Elías Úlfur Helgason 6, Ari Gylfason 4, Bjarni Geir Gunnarsson 4, Arnþór Tryggvason 4/5 fráköst, Maciej Klimaszewski 2, Þórarinn Friðriksson 0, Svavar Ingi Stefánsson 0.

 

Mynd:  Sveinbjörn Claessen átti frábæran leik fyrir ÍR. (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -