Njarðvík vann í kvöld öruggan sigur á Þór Akureyri í Subwaydeild kvenna og batt þar með enda á þriggja leikja sigurgöngu Þórskvenna. Emilie Hesseldal og Ena Viso voru illviðráðanlegar í Njarðvíkurliðinu í kvöld. Hesseldal með 20 stig og 19 fráköst og Viso með 20 stig og 16 fráköst þar sem lokatölur reyndust 84-57.
Ena Viso og Hesseldal voru klárar frá fyrstu sekúndu, báðar með 10 stig eftir fyrsta leikhluta þar sem Njarðvík leiddi 26-14 að honum loknum.
Í öðrum leikhluta bættu gestirnir varnarleik sinn verulega og náðu að minnka muninn í 39-31 og þannig stóð í hálfleik. Eva Wium var með 9 stig hjá Þór í leikhléi en þær Hrefna og Maddie báðar 8 en Hesseldal og Viso báðar 12 í Njarðvíkurliðinu. Annar leikhluti hjá gestunum gaf góð fyrirheit um síðari hálfleikinn.
Eftir tæplega sjö mínútna leik í þriðja leikhluta var Njarðvík búið að leggja mjög traustan grunn að sigri kvöldsins. Heimakonur komust í 60-39 og leiddu svo 62-47 eftir þriðja leikhluta.
Það var alltaf smá von að eitthvert áhlaupið hjá Þór myndi ná að blómstra verulega en þegar Krista Gló Magnúsdóttir kom Njarðvík 69-49 með þrist snemma í fjórða þá var vonin endanlega farin. Lokatölur 84-57 eins og áður greinir.
Njarðvík var við stýrið í kvöld og útfærðu leikinn vel. Næst á dagskrá hjá þeim í deildinni er risaleikur gegn Stjörnunni þann 6. janúar á meðan Þórsarar mæta Haukum að Ásvöllum.
Gangur leiks:
14-10, 26-14.
34-23, 39-31
50-38, 62-47.
71-53, 84-57.
Framtíðarmúsík
Hólmfríður Eyja Jónsdóttir lék sinn fyrsta leik fyrir Njarðvík í kvöld og skoraði sín fyrstu stig fyrir uppeldisfélagið en Njarðvíkingar telfdu fram fjórum 15 ára leikmönnum á skýrslu þetta kvöldið en þær eru Hulda María Agnarsdóttir, Sara Björk Logadóttir, Kristín Björk Guðjónsdóttir og Hólmfríður Eyja Jónsdóttir. Þær léku allar saman inná síðustu mínútu leiksins.