Emil Barja átti frábæran leik gegn ÍR í gærkvöldi þó hann hafi ekki skorað mikið. Hann leiddi Haukana í fráköstum með 10 og átti margar gullfallegar stoðsendingar. Hann hlýtur að vera sáttur við hvernig Haukarnir eru að koma til leiks þessa dagana.
"Mér líst bara mjög vel á þetta. Við höfum verið að byrja alltaf svo illa núna síðustu 4 leiki. Núna bara rifum við okkur í gang og byrjuðum mikið betur."
Nýjar varnaráherslur Ívars þjálfara virðast vera að skila sér mjög vel. "Breytingar í vörninni eru að skila sér mjög vel. Hvernig við dekkum pick & roll. Ég meina þeir skora bara 57 stig. Þetta er að skila sér varnarlega alveg 100% og svo fylgir sóknin bara þar á eftir."
"Það eru allir að skora og enginn einn að hugsa um tölfræðina sína," bætti Emil við. "Þetta er bara liðsframtak."
Síðustu þrír leikir hafa verið gegn botnliðunum og næsti leikur hjá Haukum er gegn bikarmeisturum Stjörnunnar. Eru Haukarnir klárir í þá viðureign. "Já, ef við höldum þessu tempói. Ég meina við erum að vinna þá með um 50 stigum. Ef við spilum svona þá ættum við að vinna hin liðin líka."
Mynd: Emil Barja spilar stífa vörn á Odd Kristjánsson. (HT)