21:20
{mosimage}
Juan Carlos Navarro átti góðan leik í dag
Það verða Spánverjar og Rússar sem leika til úrslita á Evrópumótinu en úrslitaleikurinn fer fram á morgun. Þjóðverjar komu á óvart í dag og sigruðu Slóvena í keppni um 5. til 8. sætið og hafa því tryggt sér sæti í forkeppni fyrir Ólympíuleikana.
Fyrsti leikur dagsins var leikur Króata og Frakka í keppni um 5. til 8. sætið, Króatar höfðu leikinn í sínum höndum allan tímann og sigruðu 86-69 og hafa því tryggt sér sæti í forkeppni Ólympíuleikanna en Frakkar þurfa að sigra í leik sínum um 7. sætið á morgun til að komast í þá keppni. Marko Popovic og Zoran Planinic skoruðu 15 stig hvor fyrir Króata en Tony Parker skoraði 18 fyrir Frakka.
Seinni leikurinn í keppni um 5. til 8. sætið var leikur Þjóðverja og Slóvena en liðin mættust í milliriðli þar sem Slóvena sigruðu stórt, 77-47. Á þeim tíma voru Slóvenar í mikilli uppsveiflu en fyrir leikinn í dag höfðu þeir tapað tveimur leikjum í röð og virtist það sitja í þeim. Eftir að hafa leitt lengst af tóku Þjóðverjar, leiddir áfram af Dirk Nowitzki, þetta og sigruðu 69-65 og þar með hafa Þjóðverjar tryggt sér sæti í forkeppni Ólympíuleikanna en Slóvenar þurfa að vinna Frakka á morgun til að tryggja sig þangað. Dirk Nowitzki sýndi klærnar í dag og skoraði 28 stig og tók 10 fráköst en Jaka Lakovic skoraði 17 stig fyrir Slóvena.
Fyrri undanúrslitaleikurinn var viðureign Heimsmeistara Spánverja og Evrópumeistara Grikkja. Liðin mættust í milliriðli og þar sigruðu Spánverjar örugglega en eftir misjafnt gengi til að byrja með sýndu Grikkir klærnar í átta liða úrslitum og stálu sigrinum af Slóvenum. Leikurinn var jafn og spennandi en Spánverjar leiddu framan af og náðu 11 stiga forystu í fyrri hálfleik. Í þriðja leikhluta komust Grikkir framúr en 9-1 syrpa Spánverja í lok leiks breytti stöðunni úr 67-65 fyrir Grikki í 74-68 fyrir Spánverja sem sigruðu 82-77. Grikkir leika því um bronsið og þurfa að vinna þann leik til að tryggja sér öruggt sæti á Ólympíuleikunum í Peking. Vinirnir og félagarnir frá Barcelona sem nú leika saman í Memphis Grizzlies, Juan Carlos Navarro og Pau Gasol áttu mjög góðan leik báðir og skoruðu 23 stig hvor. Vasileios Spanoulis var stigahæstur Grikkja með 24 stig.
Leikur Rússa og Litháa var sannkallaður háspennuleikur milli nágrannanna úr austri. Rússar byrjðu frábærlega og komust í 10-1 á meðan ekkert gekk hjá Litháum. Leikurinn jafnaðist eftir þetta en Litháar voru alltaf aðeins á eftir en þó alltaf í seilingarfjarlægð svo spennan var gríðarleg í höllinni og Rússar sigruðu að lokum 86-74. Andrei Kirilenko lék mjög vel í leiknum og skoraði 29 stig en einngi átti J.R. Holden mjög góðan leik. Hjá Litháum skoraði Siskauskas 30 en hann skoraði 5 þriggja stiga körfur.
Rússar mæta því Spánverjum í úrslitum á morgun en jafnframt hafa þeir tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum í Peking, Rússland og Spánn mættust í milliriðli þar sem Spánverjar sigruðu 81-69. Litháar þurfa að spila við Grikki um bronsið og hitt örugga sætið á Ólympíuleikunum. Jafnframt var þetta fyrsti tapleikur Litháa á mótinu.
Mynd: www.eurobasket2007.org