21:39
{mosimage}
Massimo Bulleri hetja Ítala þurfti aðstoð dómara í fyrri hálfleik
Það var aðeins einn leikur á Evrópumótinu í dag sem bauð upp á spennu, það var leikur Ítala og Tyrkja sem endaði með sigri Ítala 84-75 eftir framlengingu. Þar með eiga Tyrkir ekki lengur möguleika á að komast í 8 liða úrslitin.
Tyrkir geta nagað sig í handarbökin því þeir leiddu 67-61 þegar 3:50 voru eftir af venjulegum leiktíma en skoruðu einungis 3 stig það sem eftir var af venjulegum leiktíma og Massimo Bulleri jafnaði fyrir Ítali með 2 vítaköstum þegar 9 sekúndur voru eftir. Í framlengingunni stóð ekki steinn fyrir steini hjá Tyrkjum og Ítalir unnu framlenginguna 14-5. Ítalir eiga nú ágæta möguleika á að komast áfram en þeir mæta Þjóðverjum á miðvikudag í úrslitaleik um fjórða og síðasta sætið í 8 liða úrslitin og miðað við spilamennsku Þjóðverja í dag þá fara þeir ekki mikið lengra. Angelo Gigli og Marco Belinelli voru stigahæstir Ítala með 17 stig en Hidayet Turkoglu skoraði mest Tyrkja, 34 stig en tók einnig 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.
Annar leikur dagsins var leikur Litháa og Frakka og var einvígis Sarunas Jasikevicius og Tony Parker beðið með mikilli eftirvæntingu. Það einvígi varð þó aldrei spennandi því Litháar lokuðu gjörsamlega á Parker sem skoraði einungis 11 stig en gaf þó 6 stoðsendingar. Jasikevicius skoraði 14 stig og gaf sínar 7 stoðsendingar og stýrði liði sínu eins og herforingi. Annars héldu Litháar Frökkum í heljargreipum allan leikinn og Frakkar áttu ekki mikla möguleika og enduðu leikar 88-73. Ramunas Siskauskas var stigahæstur Litháa með 19 stig en Florent Pietrus skoraði 13 fyrir Frakka.
Í síðasta leik kvöldsins var aldrei nein spenna, Slóvenar leiddu 30-9 eftir fyrsta leikhluta og endaði leikurinn 77-47 fyrir Slóvena sem eru enn taplausir. Þeir mæta Litháum á miðvikudag sem er einmitt einnig taplausir. Þjóðverjar mæta aftur á móti Ítölum í leik um það hvort liðið kemst í 8 liða úrslit. Smodis var stigahæstur Slóvena með 22 stig en Dirk Nowitzki skoraði 16 stig fyrir Þjóðverja þó hann spilaði aðeins 23 mínútur.
Mynd: www.eurobasket2007.org