21:25
{mosimage}
Rudy Fernandez var góður í kvöld
Spánn og Rússland tryggðu sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í dag og Rússar lifa því enn í voninni að komast á Ólympíuleikana í Peking. Spánverjar hafa nú þegar tryggt sér sæti þar sem ríkjandi heimsmeistarar.
Rússar mættu Frökkum í átta liða úrslitum í dag í hnífjöfnum og spennandi leik þar sem hlutirnir réðust á vítalínunni í lokin þegar liðin skiptust á að labba á milli vítalínanna. Rússar höfðu betur í lokin 75-71 og eru þar með komnir í undanúrslit á stórmóti í fyrsta sinn í 10 ár. Leikurinn bauð einnig upp á einvígi á milli Rússans Jon Robert Holden og Frakkans Tony Parker. Það var Holden sem hafði betur en hann var ískaldur á vítalínunni í lokin og skoraði úr sínum vítum á meðan Parker var ekki jafn öruggur. Victor Khryapa leikmaður Chicago Bulls átti einnig góðan leik fyrir Rússa en hann skoraði 16 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsedingar, Holden skoraði 15 stig. Boris Diaw frá Phoenix Suns var stigahæstur Frakka með 17 stig en Tony Parker skoraði 15.
Seinni leikur dagsins var svo viðureign Spánverja og Þjóðverja þar sem fólk gladdi sig til að sjá viðureign Pau Gasol og Dirk Nowitzki. Fyrirfram var þó reiknað með öruggum sigri Spánverja en Þjóðverjar stóðu í þeim til að byrja með og eftir fyrsta leikhluta var staðan 18-14 fyrir Spán. Spánverjar tóku svo góða rispu í lok annars leikhluta og leiddu 40-27 í hálfleik. Seinni hálfleikur var meira og minna eign Spánverja og voru lokatölur 83-55. Þeir Jose Calderon og Rudy Fernandez voru stórkostlegir í leiknum. Calderon endaði með 17 stig og Fernandez með 12, það gerði einnig Juan Carlos Navarro sem þó spilaði aðeins 14 mínútur. Dirk Nowitzki skoraði 11 stig fyrir Þjóðverja og Jan Hendrik Jagla var með 11.
Mynd: www.eurobasket2007.org