Landsliðsmaðurinn Elvar Már Friðriksson var í dag valinn mikilvægasti leikmaður úrvalsdeildarinnar í Litháen. Elvar Már kom til liðs Siauliai í deildinni fyrir tímabilið og hefur skilað stórkostlegu framlagi á sínu fyrsta tímabili í deildinni, 16 stigum og 7 stoðsendingum að meðaltali í leik, en hann leiddi deildina í framlagi í vetur með 20 framlagsstig að meðaltali í leik.
Liðinu gekk alls ekki vel framan af tímabili, en með góðum úrslitum síðustu mánuði tókst þeim að tryggja sér 7. sætið og þar með þátttökurétt í úrslitakeppninni þar sem þeir mæta stórliði Rytas í fyrstu umferð.
Þetta mun vera annað tímabilið í röð sem Elvar Már fær einstaklingsverðlaun fyrir frammistöðu sína, en á síðasta tímabili var hann valinn bakvörður ársins er hann lék með meistaraliði Boras í Svíþjóð.