Elvar Már Friðriksson leikmaður Siauliai í LKL deildinni í Litháen var valinn í úrvalslið vikunnar hjá deildinni fyrr í dag fyrir frammistöðu sína gegn Neptunas. Mun þetta vera í annað skiptið í vetur sem Elvar er í úrvalsliðinu, en þá fékk hann einnig verðlaun fyrir að vera leikmaður mánaðarins í nóvember. Eftir fyrstu 12 leikina leiðir hann deildina bæði í stoðsendingum, með 7.2 og í framlagi, með 20.6 að meðaltali í leik
Elvar Már var framlagshæsti leikmaður liðsins í sterkum 88-94 sigri. Á tæpum 33 mínútum spiluðum skilaði hann 11 stigum, 3 fráköstum, 11 stoðsendingum og 4 stolnum boltum, en framlagsstig hans í leiknum voru 25.