Njarðvíkingar tóku á móti Breiðablik í kvöld. Heimamenn léku án hins geysi sterka Ólafs Helga Jónssonar sem var meiddur á nára. En reiknað er með honum aftur á parketinu strax í næsta leik. Hjá Blikum vantaði Snorra Hrafnkelsson sem er enn að jafna sig eftir höfuðhögg sem hann fékk um daginn. Heimamenn í Njarðvík sitja fyrir leikinn á toppi deildarinnar með Tindastóll á meðan gestirnir frá Breiðablik verma botninn.
Njarðvíkingar byrjuðu leikinn betur og komust í 8 . 2. Blikar áttu því næst frábæran 0 – 14 kafla og komust vel yfir. Blikar kláruðu leikhlutann af miklu öryggi, staðan eftir fyrsta leikhluta 19 – 29.
Blikar byrjuðu fyrstu sekúndur annars leikhluta af sama krafti og þeir kláruðu fyrsta leikhluta. En Njarðvíkingar tóku svo öll völd á gólfinu og settu 17 stig á fyrstu þrem mínútum leikhlutans. Njarðvíkingar komust mest 10 stigum yfir en Blikar gerðu vel, eltu heimamenn uppi og jöfnuðu. Staðan í hálfleik 53 – 53. Það er ekki að sjá á leik liðanna að þetta séu lið í topp og botn baráttu að eigast við.
Þeir félagar Jón Arnór Sverrisson og Adam Eiður Ásgeirsson áttu gríðarlega mikilvæga og flotta innkomu í öðrum leikhluta, Elvar Már Friðriksson var líka í fanta formi í fyrri hálfleik, setti 21 stig og var með 5 stoðsendingar.
Liðin skiptust á að skora í byrjun þriðja leikhluta, leikurinn var fimm sinnum jafn á fyrstu 5 mínútunum. Leikhlutinn var afar jafn og skemmtilegur fram á síðustu rúmu mínútuna þegar Blikar tóku öll völd á vellinum og náðu að koma sér mest 9 stigum yfir. Staðan að þriðja leikhluta loknum 78 – 84. Allt byrjunarlið Blika komið með 10 eða fleiri stig með Christian Covile fremstan í flokki með 21 stig og 6 fráköst.
Fjórði leikhluti byrjaði brösuglega, það var eitthvað vesen með klukkuna og töluverðar tafir voru því á leiknum. Þegar leikurinn fór loks af stað setti Jeb Ivey sem hafði farið lítið fyrir fram að þessu tvo þrista í röð og stal svo boltanum. Elvar Már skoraði tvö og hitti úr víti sem hann fékk og jafnaði leikinn 88 – 88. Spennandi lokamínútur því í vændum. Njarðvíkingar sigldu fram úr Blikum smám saman með. Jeb Ivey og Elvar Már Friðriksson báðir að skila miklu fyrir liðið. Bæði Snorri Vignisson og Mario Matasovic fóru út af með 5 villur. Blikar gerðu vel í að koma til baka síðustu mínútuna og komust 3 stigum frá Njarðvík en það var Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson sem kláraði leikinn af vítalínunni og kom Njarðvík 5 stigum yfir þegar tæpar 4 sekúndur voru eftir. Blikar náðu ekki að skora og endaði leikurinn því með sigri Njarðvíkinga 108 – 103.
Byrjunarlið:
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Jeb Ivey, Kristinn Pálsson, Maciek Baginski og Mario Matasovic
Breiðablik: Christian Covile, Sveinbjörn Jóhannesson, Hilmar Pétursson, Erlendur Ágúst Stefánsson og Snorri Vignisson.
Þáttaskil:
Njarðvíkingar tóku öll völd á vellinum um miðbik fjórða leikhluta. Jeb Ivey sem var búin að vera frekar rólegur framan af leik var frábær. Elvar Már Friðriksson sem var búin að vera frábær allan leikinn hélt uppteknum hætti og kláraði Blikana með Jeb.
Tölfræðin lýgur ekki:
Tölfræði Elvars lýgur engu. 7/13 í tvistum, 5/7 í þristum. Hann var alveg stórkostlegur!
Hetjan:
Christian Covile var bestur gestanna, hann var með 26 stig, 10 fráköst, 6 stoðsendingar og 33 framlagspunkta. Maður leiksins, maður umferðarinnar, MAÐURINN var samt sem áður Elvar Már Friðriksson sem hvað eftir annað skildi varnamenn Blika eftir í rykinu. Hann skilaði þrefaldri tvennu, 40 stig, 11 fráköst, 12 stoðsendingar og 50 framlagspunktum takk fyrir túkall.
Kjarninn:
Fyrir leikinn hefðu fáir búist við því að Blikar yrði einhver mótspyrna fyrir Njarðvík. Breiðablik voru mjög sannfærandi framan af leik. Þeir gerðu vel í því að komast aftur inn í leikinn í fjórða leikhluta en höfðu ekki það sem þurfti til að ná í stig í dag. Njarðvíkingar voru ekkert sérstaklega sannfærandi en gerðu mjög vel í að klára leikinn. Bekkurinn kom sterkur inn þegar byrjunarliðið fyrir utan Elvar Már var ekki að skila miklu.