spot_img
HomeFréttirElvar Már: Bjartsýnir á sæti í byrjunarliði

Elvar Már: Bjartsýnir á sæti í byrjunarliði

Útrásin okkar til Mekka körfuboltans, New York borgar er hafin. Þar eru fulltrúar okkar þeir Elvar Már Friðriksson, Njarðvík og Martin Hermannsson, KR í LIU Brooklyn háskólanum og Gunnar Ólafsson, Keflavík í St. Francis háskólanum.
 
Í stuttu spjalli við Karfan.is sagðist Elvar Már vera bjartsýnn á sæti í byrjunarliðinu eftir æfingar undanfarinna vikna.
 
“[Þjálfarinn] stillir upp byrjunarliðinu alltaf á æfingum og við erum oftast báðir búnir að vera í því og hann segist ætla að spila okkur helling,” sagði Elvar. Elvar og Martin eru meðal 7 nýrra leikmanna í liðinu svo það er ljóst að einhver þeirra mun enda í byrjunarliðinu. “Ég er bara bjartsýnn því við höfum verið með betri mönnum á æfingum,” bætti Elvar við.
 
Undirbúningstímabilið er búið að vera langt hjá þeim ólíkt því sem þeir eru vanir hér á Fróni, en Elvar bætti við að þetta sé búið að vera mjög gaman samt. Þeir héldu utan strax að loknu landsliðsprógramminu og hafa verið á æfingum síðan þá, en það er enn tæpur mánuður í fyrsta leik.
 
Elvari finnst LIU háskólinn vera með sterkan hóp í ár þó þeim hafi aðeins verið spáð 8. sæti af 10.
 
Tímabilið þeirra hefst með NIT móti sem er svæðismót sem er ekki innan þeirra riðils en telst engu að síður með í deildarkeppninni. Fyrsti leikur þeirra er gegn St. John’s háskólanum þann 19. nóvember nk. og verður hann sýndur beint á ESPN.
 
 
Mynd:  Ekki slæm æfingaraðstaðan hjá þeim í Brooklyn. (Ingvar Örn Ákason – Facebook)
 
Fréttir
- Auglýsing -