Landsliðsbakvörðurinn Elvar Már Friðriksson og félagar hans í Siauliai í Litháen töpuðu í kvöld fyrir Pieno Zvaigzdes í fyrsta heimaleik sínum þetta tímabilið, 81-80.
Eftir að hafa leitt lungann úr leiknum þurftu Elvar og félagar að sætta sig við að lið Zvaigzdes setti niður þrist til þess að komast einu stigi yfir þegar undir sekúnda var eftir, 81-80.
Elvar var atkvæðamestur í sínu liði í kvöld, en á 35 mínútum spiluðum í leiknum skilaði hann 19 stigum, 10 stoðsendingum og 6 fráköstum.