Elvar Már Friðriksson og Valur Orri Valsson eru nú að nálgast lokasprettinn þetta árið á sínu tímabili í háskólaboltanum en í kvöld fer fram leikur Barry og Florida Tech í úrslitakeppni SSC deildarinnar. Leikurinn er á heimavelli Barry þar sem þeir enduðu tímabilið númer eitt í deildinni. Florida eru hinsvegar númer 8 og það gefur því að skilja að lið Barry ætti að vera sigurstranglegra. Að því sögðu þá má þess geta að Florida hafa náð sigri gegn Barry í vetur á þeirra eigin heimavelli. Seinni leik liðanna unnu svo Barry á heimavelli Flordia Tech fyrir um 2 vikum eða svo.
"Leikirnir í vetur hafa verið mjög jafnir á milli okkar.Þetta er mjög jöfn deild svo bilið á milli 1. sæti og 8. sæti er ekki mikið. Við unnum 6 leiki í röð og tryggðum okkur deildarmeistaratitilinn en töpuðum svo seinasta leiknum í mótinu gegn liðinu í neðsta sætinu og það segir til um hversu jöfn deildin er." sagði Elvar Friðriksson í samtali við Karfan.is
Sem fyrr segir Elvar og félagar í Barry sem enduðu veturinn í efsta sæti deildarinnar 14 sigra og 6 töp í vetur. "Ég held að við séum sigurstranglegir í þessu móti þar sem við unnum deildina en úrslitakeppnin er bikarkeppni þar sem lið þurfa bara að vinna einn leik til þess að komast áfram svo fyrsti leikurinn verður hörku leikur og verðum við að hitta á topp leik til þess að komast áfram." bætti Elvar við.
Staðan í vetur milli liðanna er 1:1 eins og áður hefur komið fram og Elvar viðurkennir það fúslega að deildin er jöfn. "Við viljum hafa hátt tempó í leiknum þar sem Florida Tech spilar ekki á mörgum mönnum, svo þurfum við auðvitað að halda Val Orra niðri þar sem hann stjórnar þeim mjög vel. Þeir eru með mjög góða leikmenn sem eru góðir skorarar, þeir eru með tvo leikmenn sem eru með um 20 stig á leik og verðum við líka að halda þeim niðri ef við ætlum að ná sigri." sagði Elvar um leikinn í kvöld.
Elvar er á sínu síðasta ári í Háskólaboltanum en Valur Orri á sínu öðru ári og því ekki úr vegi að spurja hvernig árið hefur verið þegar þeir félagar mætast. " Það hefur vakið smá athygli þar sem við báðir höfum verið samherjar áður og mótherjar á Íslandi. Við erum stoðsendingahæstu leikmenn deildarinnar okkar og höfum báðir öðruvísi leikstíl en aðrir leikmenn hér svo að það er mjög gaman af því. Við báðir höfum stór hlutverk í okkar liðum og við munum ekki gefa hvor öðrum neitt eftir eins og við erum vanir þegar við mætumst. Það er aðeins öðruvísi að mæta honum hér úti því leikirnir sem við spiluðum á móti hvor öðrum heima voru Njarðvík – Keflavík. Ég get ekki líkt þeim leikjum við okkar leiki þar sem rígurinn er ekki alveg sá sami. En við viljum alltaf gera vel svo það verður hart barist vegna þess að liðið sem tapar á morgun er úr leik og þar af leiðandi verður tímabilið búið." sagði Elvar
Þar sem Barry eru númer 1 og eiga titil að verja frá síðustu tveimur árum þá vildum við hlera Elvar með framhaldið nái þeir að komast í gegnum Florida Tech í kvöld og þá sérstaklega lið númer 2 í deildinni, Eckerd háskólann. "Við erum með lið sem vill spila hratt og skjóta mikið af þristum. Við spilum smá viltan bolta og viljum halda stigaskorinu háu. Eckerd eru með leikmenn sem eru meiri íþróttarmenn en við erum með. Þeir hoppa hærra og spila meira upp við körfuna. Þeir eru mjög gott varnarlið og vilja halda leikjunum sínum í lágu skori. Þetta eru mjög jöfn lið og ráðast úrslitin yfirleitt alltaf á seinustu sekúndunum þegar við mætumst. D2 tournament hefst um næstu helgi og veðrum við allavega að vinna einn leik í playoffs í okkar deild til þess að komast þangað. Þá er fyrirkomulagið eins og í March Madness þar sem 64 lið spila og það er útsláttarkeppni. Mjög skemmtilegt fyrirkomulag og vonandi komumst við þangað og getum gert vel í því móti." sagði Elvar að lokum.
Seinna í dag heyrum við svo í Val Orra Valssyni um þessa íslendinga viðureign þeirra félaga í kvöld.