Elvar Már Friðriksson var kannski ekki að spila sinn fyrsta landsleik í Bosníu en vissulega fékk hann þar sinn stærsta “séns” ef svo má að orði komast þegar hann kom inná og spilaði um 20 mínútur í leiknum.
“Þetta var augnablik sem maður mun aldrei gleyma, þessi stemning var á allt öðru plani en maður er vanur svo þetta mun fara í reynslubankann þessi leikur.”
Elvar sagðist allt alveg eins eiga von á að fá mínútur í leiknum þar sem Pavel yrði hvíldur að mestu.
“Þjálfarinn ræddi það ekkert sérstaklega en ég bjóst alveg við því að fá mínútur. Pavel var hvíldur og það átti að dreifa spilatímanum fyrir Bretaleikinn svo ég var vel undirbúinn þegar ég kom inná.”
Fyrir leik var liðinu svo sem ekkert spáð mikilli frægðarför til Bosníu en liðið sýndi heimamönnum litla virðingu og ef ekki hefði verið fyrir Mirza Teletovic stórstjörnu þeirra Bosníumanna þá hefðu okkar menn hreinlega átt góðan séns á sigri í leiknum.
“Menn voru alls ekkert sáttir með tap, við fórum í leikinn til að vinna og menn voru svekktir með tapið þar sem við vorum inní leiknum í lokin og hefðum hæglega getað stolið sigrinum.”
Liðið er nú komið til London og æfing verður hjá liðinu í dag. En er það eitthvað að þvælast fyrir að liðið eigi þessi 12 stig á Bretana?
“Það er klárlega spilað til sigurs, við ætlum alls ekki að verja neitt forskot því það er mikilvægt að fara með amk tvo sigra úr riðlinum til að geta komist á lokakeppnina 2015” sagði Elvar að lokum.