Þórsstúlkur tóku á móti toppliði Hauka í Bónus deild kvenna í körfubolta og var þetta annar leikur liðanna á skömmum tíma. Síðastliðin laugardag sló Þór Hauka úr Vís bikarnum og nú í deildinni. Leikurinn í kvöld einkenndist af miklum sveiflum svo að einhver sagði “Það er ýmist í ökkla eða eyra”.
Gestirnir hófu leikinn af miklum krafti og lét finna fyrir sér og komust 8:0 áður en Þórsliðið náði áttum og kom sér inn í leikinn. Leikurinn komst fljótt á mikið flug og þegar fyrsti leikhlutinn var allur hafði Þór átta stiga forskot 32:24 og fóru þær Natalia og Esther Fokke mikinn. Natalia var þá komin með 9 stig öll úr þristum og Esther var komin með 14 stig. Hjá Haukum var Lore öflug og komin með 11 stig.
Þórsarar hófu annan leikhlutann af miklum krafti og hreinlega tóku leikinn í sýnar hendur og þær Esther og Natalia héldu áfram uppteknum hætti og þá komu Eva Wium og Maddie sterkar inn. Þór vann leikhlutann 29:14 og leiddi því með 23 stigum í hálfleik 61:38. Þarna var Esther komin með 16 stig Eva 8 Natalia 18 og Maddie 10. Í öðrum leikhlutanum lét Lore lítið fyrir sér fara og bætti aðeins einu stigi við í sarpinn og kominn með 12 stig. Eva Margrét og Þóra Kristín voru með 9 stig hvor.
Þegar þarna var komið við sögu má segja að margur áhorfandinn hafi hugsað með sér að nú væri björninn unninn. En svo var aldeilis ekki. Það var engu líkara að allt annað Haukalið hafi komið inn í síðari hálfleikinn, og í raun má segja það sama um Þór.

Haukar gáfu allt í botn og hreinlega keyrði yfir Þór sem nú virtist heillum horfið og gestirnir gengu á lagið og söxuðu jafnt og þétt á forskot Þórs og unnu leikhlutann 10:28 og þegar loka fjórðungurinn hófst var munurinn komin niður í 5 stig 71:66. Í þriðja leikhlutanum virtust Þórsstúlkur varla vitað hvaðan á sig stóð veðrið. Tapaðir boltar, slæmar sendingar og slök hittni einkenndi leik Þórs meðan allt lék í lyndi hjá gestunum.
Í raun var spil beggja liða í fjórða leikhluta ekki burðugur. Mikil barátta á báða bóga og Haukar komnir á bragðið og um tíma virtist sem leikurinn væri að snúast þeim í vil. Fum og fát einkenndi leik beggja liða á lokasprettinum og taugaspennan alls ráðandi. Þegar um ein mínúta lifði leiks var munurinn aðeins tvö stig 82:80 en Þórsliðið hafði sterkari taugar þegar upp var staðið og hafði að lokum sex stiga sigur 86:80.
Í liði Þórs var Esther Fokke mjög öflug með 27 stig og var hún m.a. með 7 þrista í 9 tilraunum. Þá var hún með 4 fráköst og 1 stoðsesndingu. Maddie var með 19 stig 13 fráköst og 4 stoðsendingar. Amandine 18 stig, Eva Wium 12/3/6, Amandine Toi 8/4/9 og Emma Karólína 2/8/0.
Hjá Haukum var Lore Devos með 22 stig 12 fráköst og 3 stoðsendingar. Þóra Kristín 13/4/5, Diamond 12/5/2, Tinna Guðrún 11/2/3, Eva Margrét 9/2/3, Sólrún Inga 9/1/0 og Rósa Björk 4/2/4.
Gangur leiks eftir leikhlutum: 32/24 – 29/14 (61:38) 10:28 – 15:14 = 86:80
Með sigrinum minnkaði Þór forskot Hauka niður í tvö stig þ.e. Haukar eru á toppi deildarinnar með 24 stig og Þór í öðru sætinu með 22 stig.
Þór hefur nú unnið 9 leiki í röð í deildinni og ef bikarinn er talinn með eru þetta 11 sigrar og þá er liðið enn sem komið er taplaust á heimavelli í vetur.
Myndasafn (væntanlegt)
Umfjöllun, myndir / Palli Jóh