Hrunamenn og Hamar mættust í þriðja sinn á leiktíðinni í leik sem leikinn var á Flúðum í kvöld. Hamar hefur verið á mikilli siglingu undanfarnar vikur, skorað mikið og unnið alla leiki. Gengi Hrunamanna hefur verið upp og ofan.
Leikurinn var bráðskemmtilegur frá upphafi til enda. Gestirnir voru heillum horfnir í fyrri hálfleik. Varnarleikur þeirra var máttlaus og í sókninni hittu þeir óvenjulega illa. Á sama tíma léku Hrunamenn mjög vel. Boltinn gekk vel á milli manna og margir leikmenn lögðu hönd á plóg. Yngvi Freyr var meðal annarra góður, skotin hans fóru rétta leið, hann var áræðinn undir körfunni og þótt hann mætti sín lítils í frákastabaráttunni í háloftunum gegn Ragnari Nathanaelssyni gekk honum prýðilega að stíga hann út þannig að aðrir leikmenn Hrunamanna gátu náð fráköstunum. Í hálfleik var staðan 51-35 Hrunamönnum í vil.
Í 3. fjórðungi snerist dæmið algjörlega við. Hamar saxaði niður forystuna með miklu meiri ákefð í varnarleiknum en verið hafði í fyrri hálfleiknum. Í sókninni dró Mirza vagninn. Hann var stórkostlegur fyrir Hamarsmenn og sallaði niður þristunum. Þegar á leið fylgdu félagar hans fordæmi hans og áður en langt um leið hafði Hamar jafnað leikinn og komist yfir og meira að segja komist mest tíu stigum yfir. Á þeim kafla hafði Jose líka leikið vel. Áhlaup Hamarsmanna var langt og þegar líða tók á lokafjórðunginn fór að draga af aðalkörlunum. Hrunamenn komu til baka og nokkrum sinnum var staðan jöfn. Þegar 11 sekúndur voru til leiksloka höfðu Hamrasmenn eins stigs forystu og Hrunamenn stilltu upp í sókn þar sem brotið var á Hauki Hreinssyni. Hann fór á vítalínuna og setti niður tvö skot og voru heimamenn þar með komnir einu stigi yfir og sex sekúndur eftir.
Halldór Karl, þjálfari Hamars, tók leikhlé. Hamarsmenn stilltu upp í kerfi þar sem Jose fékk boltann og óð með hann inn í teiginn þar sem Hrunamenn þéttu í kringum hann og skildu þar með Elías Bjarka Pálsson eftir einan fyrir utan þriggja stiga línuna. Jose sendi slaka sendingu á Elías sem tókst þó að handsama knöttinn og fleygja honum beina leið ofan í körfuna og tryggja Hamri sigur í þessum skemmtilega og æsispennandi leik.
Hrunamenn eru í 6. sæti í deildinni í baráttu við Selfoss, Ármann, Fjölni og Skallagrím um sæti í úrslitakeppninni en Hamar situr sem fastast í öðru sæti.
Myndasafn (Brigitte Brugger)